Espergærde. Kanellengja eftir vinnu

Ég gæti vel hugsað mér að eiga oftar afmæli því mér er farið að finnast það ánægjulegra eftir því sem ég verð eldri. Hér heima er allt sett í gang til að gera daginn hátíðlegan, bakarísbrauð í morgunmat, kanellengja eftir vinnu og hátíðarkvöldmatur.

Ég er eiginlega hissa á hvað ég er glaður að fá kveðjur frá ólíklegasta fólki. Sumir skrifa löng bréf, aðrir heilsa með high five á facebook. Best er auðvitað að fá löng bréf.

Sjálfur var ég stærstan hluta afmælisdags úti í regni og roki að byggja garðpall bak við hús. Ég sé nú að við verðum aldrei búnir fyrr en á morgun, ég er svolítið nervös að nota svo mikinn tíma frá vinnu, en þetta garðverkefni hafði ég planlagt í þessari viku og höfuðsmiðurinn Bork er kominn alla leið frá Jótalandi.

Ég fékk langt bréf í gær, afmælisbréf,  frá einum af vinum mínum. Við lestur þess bréf áttaði ég mig á að ég hafði kannski, í algeru hugsanaleysi, verið ókurteis við Tomma í Sögum hér á Kaktusnum. Það á hann ekki inni hjá mér.

En nú er mér ekki til seturnar boðið, ég heyri gamlan rúgbrauðsfólkvagen keyra upp götuna. Það er smiðurinn Bork.

p.s Dreymdi að mamma mín hefði skammað mig fyrir að vilja alltaf fá sérrétti í kvöldmat, alltaf pönnusteikt svínakjöt. Ég held að ég hafi aldrei verið skammaður þegar ég var lítill, hvorki af pabba mínum né mömmu, það var því frekar óþægilegt að dreyma svona draum.

img_8597
Við upphaf verks.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.