Espergærde. Jógaæfingar

Mér heyrist að margir Íslendingar hafi fengið sig fullsadda á að hlusta á síbyljuna og hið einsleita og eitraða tal um stjórnmálamennina Sigmund Davíð og Bjarna Benediktsson og óska eftir að taka upp sömu eða sambærilegar vangaveltur og Bandaríkjamenn: Hvað mundi ég velja ef mér stæði til boða val á milli tveggja yfirnáttúrulegra krafta; að vera ósýnilegur eða hafa getuna til að fljúga? Ég er enginn aðdáandi þessara tveggja pólitíkusa en mér finnst  óþarflega  margir vera komnir með persónur þeirra á heilann. Og ekki leiðir það eitt og sér til framfara, hvorki fyrir þjóðina né þá einstaklinga sem hafa fests í þráhyggjuhugsun um þessa tvo karlmenn. Áfram nú.

Ég hef loks lokið störfum mínum úti í garði. Trépallurinn er fullbyggður og stendur þráðbeinn bak við húsið. Síðasta skrúfa var skrúfuð rétt fyrir rökkurbil í gær. Blómabeðin og steinhleðslurnar standa sömuleiðis. Í dag sit ég skrifstofunni, þar sem ég hef ekki verið síðan á mánudag. Hér er ég einn, enda enginn sem kemur til vinnu svo löngu fyrir sólarupprás. Það hafa hópast upp óleyst verkefni sem ég verð að klára áður en ég held af stað til Parísar á þriðjudag. Nú safnast líka saman stefnumótin sem ég reyni að setja í einn hnapp, fyrripart veru minnar í Signuborginni.

Skyndilega er kominn föstudagur og vinnuvikan á enda. Næstu föstudagsmorgna er ég skráður í jóganámskeið. Það er nú frekar fyndið að setja mig í samhengi við jóga. Stífari og stirðari mann er vandi að finna. En það er einmitt vegna stirðleika míns sem ég hef látið tælast til að taka þátt í jógaæfingum hjá tyrkneskri konu sem heldur jóganámskeið hér í bænum. Kápuhönnuðurinn okkar, Jón Ásgeir, benti mér á að framtíð mín lægi í ástundun jóga. Ég yrði annar og betri maður.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.