Espergærde. Að grafa upp hugrekkið

Það er sunnudagsmorgunn og klukkan er ekki orðin sex. Ég vaknaði eldsnemma og gat ekki sofið, lá lengi og reyndi að festa svefn en mér var ómögulegt að svífa aftur inn í draumalandið. Ég fann að það var þungt yfir mér, mér fannst ég vonlaus.

Ég fór á fætur og gekk niður í eldhús. Hellti upp á kaffi, opnaði dyrnar út í garð, gekk með bolla af rjúkandi kaffi út á trépallinn og andaði að mér svölu morgunloftinu. Ég settist á garðbekkinn og drakk kaffið mitt. Það var aldimmt og hvergi ljós að sjá í nágrannahúsum. Sunnudagsmorgunn í Danmörku. Gattuso, kötturinn minn, kom út og nuddaði sig upp við fætur mínar og mjálmaði á mig. Hann hafði þörf fyrir félagsskap.

Ég gekk aftur inn, lagði kaffibollann á sinn stað, settist við skrifborðið úti í mínu horni og opnaði tölvuna. Þar beið mín tölvubréf frá einum af vinum mínum sem sagði tíðindi frá heimahögum og spurði hvernig ég hefði það. Ég byrjaði að svara hinu góða bréfi og var um það bil að skrifa til hans að ég hefði það bara hálfskítt núna. Mér liði eins og markaskorara sem hefði ekki skorað mark í mörgum leikjum í röð og hefði nú verið settur á varamannabekkinn. Ég var fullkomlega hjálparlaus og fyndist (vh. þt.) bara ekkert ganga. Mér fyndist (vh. þt.) ég bara ekki lengur góður í neinu. 

En þetta skrifaði ég ekki, heldur mannaði mig upp. Nú er hvorki tími fyrir sjálfsvorkunn né örvæntingu. Maður  verður að grafa upp sitt gamla hugrekki. Ég sagði honum þess í stað frá gömlum manni sem ég hitti út við tennisvellina í gær. Hér í bænum eru 6 fínir útivellir,  hlið við hlið, rennisléttir með rauðri möl. Ég stóð einn fyrir utan háa netgirðingu sem umlykur tennisvellina og fylgdist með fjórum eldri herramönnum í hvítum tennisfötum spila tvíliðaleik. Sólin stóð lágt á heiðum himninum. Einn mannanna hafði hvíta derhúfu á höfðinu til að verjast sólarbirtunni hinir voru berhöfðaðir. Þetta var hægur tennis. Enginn hreyfði sig hratt og boltinn virtist taka tillit til aldurs mannanna því það var sem guli tennisboltinn ferðast löturhægt yfir netið. En þeir voru samt góðir, tennisspilararnir, og ég dáðist að spili mannanna. Skyndilega varð ég var við gamlan, gráhærðan mann sem hafði tekið sér stöðu við hliðina á mér og fylgdist með leiknum. Hann hafði læðst upp að mér án þess að ég yrði þess var. Þarna stóðum við tveir, þegjandi, hlið við hlið, hann í gráum frakka og hafði hendur í vösum, og horfðum á þessar gömlu hreyfingar á rauða malarvellinum. Boltinn sveif hægt yfir netið, fram og til baka  og einstöku sinnum heyrðust lág áreynsluhljóð frá mönnunum þegar þeir reyndu að slá fast til boltans. Ég hafði eiginlega gleymt hinum frakkaklædda manni sem stóð við hliðina á mér þegar hann vatt sér allt í einu að mér og spurði hvort ég hefði áhuga á að læra að spila á gítar hjá honum. Hann kenndi grunngripin í flamingogítarleik.

Í morgun fór ég í vinnufötin, ég ætla að flytja nokkra steina sem urðu afgangs í garðverkefninu mikla, keyra drasl út á öskuhauga og þegar ég kem til baka úr þeim bíltúr ætla ég að skila hjólbörunum með gula dekkið til nágranna míns, duglega mannsins, og þakka honum fyrir lánið. Um leið og hann kemur til dyra ætla ég að rétta honum höndina. Garðverkefnum ársins lokið og nú spyr ég mig hvað lifir veturinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.