Espergærde. Bækur í farteskið

Um helgina hef ég verið með hugann við Parísarferðina og reynt að skipuleggja vikuna framundan en ég legg í hann á morgun, flug klukkan 12:45. Eitt af mikilvægustu undirbúningsverkefnunum er að finna réttar bækur til að lesa á meðan ég er einn í París. Ég hef ákveðið að taka einungis íslenskar bækur með. Ég er að klára bók Guðrúnar Evu, Skegg Raspútíns, bók sem mér finnst fín. Evubók klára ég í kvöld. Svo er það spurning hvaða skáldsögu ég tek fyrir næst? Ég er búinn að lesa Auði Övu og Sigríði Hagalín svo ekki flýg ég með þær.

Í gær fletti ég í gegnum heimasíður hinna íslensku forlaga til að átta mig á landslaginu en satt að segja var ekkert sem kveikti háu ljósin hjá mér, ekki nein bók sem ég bara verð að lesa.  Eignilega er ég undrandi á að sjá hvað eru fáar áhugaverðar bókmenntaþýðingar í boði. Ja, undrandi og undrandi ekki. Hafbókin eftir Morten Ströksnes og Hlaupabók Murakamis finnst mér áhugaverðastar, en báðar er ég búinn að lesa, stórgóðar bækur. Ég hef hugsað mér að renna í gegnum Joel Dicker, Bókin um Balimore fjölskylduna í París og smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita, eftir Friðgeir Einarsson. Eina af sögunum hef ég lesið og get vel hugsað mér að lesa alla bókina.

Svona er nú það.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.