Kastrup. Tímaörvæntingin

Afhverju ætti ég ekki að kaupa bókina GÅ, eftir Thomas Esperdal þótt ég hafi ákveðið að lesa einungis íslenskar bækur þessa viku í París, hugsaði ég með mér þegar ég gekk inn í bókabúðina á flugvellinum í Kastrup. Ég er ekki aðdáandi Esperdals, mér finnst skrif hans of trivial, þau snerta hvorki mig né höfundinn. Röddina er auðvelt að þekkja, hann hefur sína sérstöku rödd. Rithöfundur getur náð ansi langt með sínum notalega tóni. En smám saman nægir ekki að lesandi kunni vel við sögumanninn, eftir nokkurn lestur spretta fram kröfur um að þessi þægilegi kliður inni í hausnum á manni setji eitthvað annað í gang. Samt ætla ég að lesa Esperdal, ég vona að hann kveiki í mér.

Ég sit á flugvellinum í Kastrup, við gluggann, og horfi á flugvélar keyra inn á sína bása og gulklædda flugvallarstarfsmenn hreyfa sig hægt á planinu fyrir utan gluggann. Þeir virka bæði latir og óáhugasamir um vinnuna sína. Minn vandi þegar ég er einn á ferð er að ég fer í hálfgert panikástand yfir tímanum, ég þarf að gernýta hann. Það er svo margt sem ég ætla að lesa, margt sem ég þarf að leysa, ýta áfram, hugsa, plana. Ég verð svo nískur á tímann ég vil næstum ekki að nota hann til að borða.

Flugvélin sem ber mig til Parísar fer upp í himininn eftir klukkutíma. Ég verð á flugvellinum í París CDG klukkan rúmlega hálfþrjú og þaðan tek ég metro til Bastillutogsins og svo er stuttur göngutúr yfir til götunnar minnar Rue des Tournells. Ég reikna með að vera kominn inn í íbúðina rétt upp úr klukkan fjögur. Og svo byrja lætin.

Ég á tvo fundi með bókmenntafólki í París, annars helga ég mig fullkomlega að koma mínu nýja missioni í gang. Öll mín orka og einbeiting fer í að ýta mínu mikilvæga og leynilega verkefni áfram. Ég ætla að vakna snemma og fara seint að sofa. Ég hafði hugsað mér að hlaupa um París, einu sinni á dag þessa sjö daga sem ég er í borginni, en ég er orðinn fráhvefur hlaupi. Þess í stað ætla ég að ganga í klukkutíma. Óttinn um að tímaörvænting nái algerri yfirhönd varð þess valdandi að ég tók göngu fram yfir hlaup. Bara til að ná mér niður.

Ég er ótrúlegur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.