París. Gamanmynd

Ef gerð væri kvikmynd um ferð mína til Parísar og veru mína þar væri myndin sennilega flokkuð sem gamanmynd. Ég er svo hlægilegur. Í nótt gat ég ekki sofið, áætlanirnar, verkefnin, tíminn, allt keyrði látlaust, hring eftir hring í höfðinu á mér. Á endanum kveikti ég ljósin, settist upp og tók bók Esperdals, GÅ, og las þar til ég fann að svefninn læddist aftur inn í mig. Nú játa ég að ég fór með fleipur í gær, ótímabært mas,  þegar ég sagði að Esperdal væri trivial. Í raun eru textarnir ansi sterkir, sumir að minnsta kosti.

tapas
Litli tapasbarinn í götunni minni

Í gærkvöldi ákvað ég að ganga út. Ég verð að njóta þess að vera í París, hugsaði ég. Gatan sem ég bý við, Rue des Tournelles, liggur inni í fjórða hverfi Parísarborgar, rétt við Bastillutorg. Hér á næsta horni er lítill tapasbar og þar settist ég inn. Þjónninn, ungur vinsamlegur maður, tók vel á móti mér og fylgi mér til sætis. Ég sá að sjónvarp hékk yfir barnum og fótboltaleikur milli Monaco og Tottenham var í gangi. Þjónninn sá að ég skimaði augunum á sjónvarpið og spurði hvort ég vildi sjá einhvern annan leik í Meistaradeildinni, allt væri í boði.
„Ja, ef hægt væri mundi ég vilja sjá FCK spila á móti Porto.“
Þjónninn sneri sér að öðrum þjóni sem stóð við barinn með viskustykki og þurrkaði glös og sagði flissandi að ég vildi sjá Kaupmannahafnarliðið spila. Báðir hlógu.

Það kom þó í ljós að FCK leikurinn var ekki sýndur í franska barsjónvarpinu svo ég fylgdist með, með öðru auganu, fótboltaleiknum með franska liðinu.

Úps, nú má ég ekki vera að því að skrifa Kaktusdagbók. Hingað í mína fínu íbúð á ég von á manni eftir fjórar mínútur. Stay tuned. Yo.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.