París. Stefnumót

Ég var vel undirbúinn. Allt var á hreinu og ég hlakkaði til. Fyrsta stefnumótið í Frakklandi, París, borginni sem ilmar af hveitibrauði. Klukkan níu átti ég von á manni sem ég hafði skipulagt fund með og það hafði bæði tekið langan tíma og mikla orku. Nú var komið að því og klukkan fjórar mínútur í níu setti ég punkt fyrir aftan færslu gærdagsins og lokaði Kaktus-dagbókinni. Ég fór inn í eldhús og kveikti á kaffivélinni, fann kaffiduft og tók fram bolla. Klukkan sló níu. Aftur settist ég við tölvuna, las tölvupósta. Svaraði nokkrum þeirra. Stóð upp og leit út um gluggann. Ekkert bólaði á manninum. Handan göturnnar, í gegnum gardínulausar rúður sá ég að maðurinn sem býr  á annarri hæð í íbúðinni andspænis mér var nývaknaður. Hann gekk alsber um stofuna sína, svefndrukkinn og alltof feitur. Eitt augnablik horfðumst við í augu yfir götuna. Ég  flýtti mér að horfða undan en hann stóð kyrr og virtist ekki kippa sér upp við mig í glugganum hinum meginn götunnar, svo hann hélt áfram að leita að nærbuxunum sínum á gólfinu.

Ég gekk inn í eldhús og hellti upp á kaffi fyrir mig sjálfan og settist við skrifborðið og leit á klukkuna á tölvunni. 9:27. Hvað dvelur manninn, hugsaði ég og tók fram iPadinn minn og ákvað að lesa áfram í Blómi Sölva Björns. Ég var svangur en ég hafði ekkert að borða í ísskápnum. Ég beið áfram, hellti aftur upp á kaffi og hélt áfram að lesa.

Nú var klukkan meira en hálf ellefu. Ég heyrði raddir frammi á gangi og gekk upp að hurðinni þar sem er gægjugat og kíkti út. Fyrir utan dyrnar í tröppugangninum sá ég tvö ungmenni, pilt og stúlku sem bæði stóðu svo þétt upp við gægjugatið og hvort annað að ég gat nánast fundið fyrir heitum andardrætti þeirra í gegnum gægjugatið. Lykt af tannkremi og kaffi þröngvaði sér inn í nasir mínar. Ég hörfaði og settist aftur við tölvuna. Æ, hvað er að gerast hérna? hugsaði ég með mér. Ég hafði sofið órólega af spenningi og nú virtist eins og ekkert verði af stefnumótinu. Bæði þreyta og hungur sótti að mér. Ég hafði varla borðað í gær og ekkert keypt í morgunmat. Ég var glorsoltinn. Aftur leit ég út um gluggann. Feiti, nakti vinur minn virtist vera í stuði því nú hafði hann sett headphone á hausinn (kominn í nærbuxur og stuttermabol) og vaggaði sér í lendunum þegar hann gekk um stofuna sína. Hann brosti þegar hann sá mig koma út að glugganum. Ég dró fyrir.

Ég ákvað að hinkra enn lengur og settist aftur við tölvuna. Nú streymdu inn skilaboð í tölvuna mína en engin frá manninum sem átti ég átti stefnumót við. Einbeitingin var í lágmarki og ég ákvað að svara ekki þeim tölvupóstum sem nú fossuðu inn.

Eftir langa bið sá fram á að enginn mundi koma svo ég fór í skó og jakka og gekk út. Klukkan var meira en tólf og ég settist inn á ítalskan veitingastað hérna í næstu götu, Petit Italia, pantaði lítinn rétt, antipasti og bjór. Ég var í vondu skapi, þrumský hékk yfir mér. Unga þjónustustúlkan sem var öll af vilja gerð til að skapa þæilega stemmningu á þéttsetna, ítalska veitingastaðnum, lét eins og ekkert væri og bar bæði brauð og olíu á borðið áður en aðalrétturinn kom. Hún færði mér meira að segja óumbeðin tvöfaldan expresso eftir matinn og sagði að kaffið væri í boði hússins.

Ég gekk heim á leið, hálfeyðilagður. Það var svo margt sem var háð þessu stefnumóti. Þegar ég opnaði dyrnar fann ég að lyktin inni í íbúðinni var öðruvís en ég var vanur. Það hékk einhver after shave loftinu. Jafnskjótt og ég gekk inn tók ég eftir að  nafnspjald lá á tölvunni minni.

Wayne Rooney, Project manager, stóð á nafnspjaldinu. Wayne Rooney? Fótboltamaður hjá Mancherster United? Ég virti nafnspjaldi fyrir mér. Á því var mynd af brosmildum manni í fráhnepptri skyrtu. Ekki fótboltamaðurinn frá Manchester. Hvenig í ósköpunum komst hann inn. Hafði ég gleymt að læsa?

Aftan á nafnspjaldið var skrifað á ensku með afar fallegum bókstöfum.

Kæri Snæbjörn,
Mér þykir leitt að hafa komið of seint á fund okkar.
Ýmsar ástæður liggja að baki sem ég vil ekki tíunda hér,
en í betra tómi segi ég þá löngu sögu. (Broskall)
Hér hefurðu símanúmerið mitt og tölvupóst.
Ég kem klukkan 09:00 á morgun.
\WR

Nú er klukkan 8:31, það er fimmtudagur, og ég er aftur byrjaður að bíða. Í íbúðinni á móti er enginn vaknaður. Allt er slökkt.

 

dagbók

Ein athugasemd við “París. Stefnumót

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.