París. Aukafærsla, aulafærsla

Ég hef byrjað þessa dagbókarfærslu mörgum sinnum. Skrifað setningu, velti henni fyrir mér og svo hef ég eytt henni og byrjað upp á nýtt. Svo hugsa ég afhverju skrifa ég ekki bara án þess að hugsa svo mikið hvað ég skrifa. Ég er hvort sem er eini maðurinn í heiminum sem les þetta. Þetta er nú meiri tilveran, ég spekúlera alltof mikið og ég er eiginlega örmagna nú. Ég meika ekki að halda áfram með þetta verkefni sem ég er búinn að setja svo mikla orku í.

Eftir að ég kom heim áðan eftir tvo langa fundi inni í París settist ég niður í sófann hérna með samloku sem ég keypti í bakarínu á næsta horni, tók iPadinn minn og fletti upp á þeim stað í bók Sölva Björns, Blómið, sem ég var kominn og byrjaði að lesa. Las og borðaði samloku. Ég dáist að mörgu í bók Sölva og vildi gjarnan bara liggja og lesa bókina en ég er eirðarlaus. Ætti ég ekki heldur að setjast niður til að vinna? hugsa ég, í stað þess að liggja hér og lesa. En á sama tíma er ég svo óánægður með hvert verkefnið mitt hefur leitt mig. Mér finnst ég eigi bara að byrja upp á nýtt og taka allt aðra stefnu, velja aðra átt. En ég hika.

Mig vantar aðra rödd sem talar rólega inni í hausnum á mér. Rólega, yfirvegaða rödd, sem veit hvernig setningin endar áður en hún byrjar. Ekki mína rödd sem byrjar ótal setningar án þess að fá skýran enda. Æ, ég er auli í dag.

ps. rétt áður en ég setti þessa færslu í loftið heyrðist PLING í öllum mínum rafeindatækjum, sem er merki um að ég hafi fengið tölvupóst. Í eitt sekundubrot trúði ég því að í þessum tölvupósti leyndist lausn á vanda mínum. Nei. Þetta var bara BLACK FRIDAY mail frá amazon. Maður skyldi aldrei treysta á aðra. Maður leysir sín vandamál sjálfur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.