París. Ert þú frú Gerhard?

Ég  vaknað fyrir klukkan sex í gærmorgun og eftir að hafa velt mér tvisvar sinnum á hina hliðina ákvað ég að fara bara á fætur. Ég mundi hvort sem er ekki sofa meira, ég átti von á Wayne Rooney eða fulltrúa hans klukkan 09:00 og kannski  fengi ég að heyra hvers vegna hann hafði svikið mig um fyrsta stefnumótið.

Ég var lengi í undir sturtubununni eins og ég væri staddur á Íslandi. Ég hafði ekki sofið mikið, og því var upplagt að láta vatnið hressa sig og uppörva. Það er merkilegt að þegar maður stendur í sturtunni hér í París getur maður horft út um lítinn glugga sem er í höfuðhæð. Út um gluggan blasir við mér skrifstofa á annarri í hæði í húsi rétt handan við lítið ruslaport. Skrifstofugluggarnir eru svo nærri að ég get næstum séð hvað þeir skrifa á tölvuna sína félagarnir tveir sem sitja hlið við hlið á skrifstofunni. Annar geispar á tveggja mínútna fresti á meðan hinn nagar blýant í miklum ákafa og lætur móðan mása yfir áhugalausan og svefnþyrstan vinnufélaga sinn. Hann talar með fullan munninn af blýöntum, hugsaði ég. Ætli það teljist ekki dónaskapur hér í París?

Það var kalt að koma út úr sturtunni svo ég flýtti mér að klæða mig eftir að hafa tekið 400 armbeygjur (jók). Ég valdi svarta skyrtu í tilefni dagsins og hneppti tveimur efstu tölunum frá til að vera í stíl með Rooney. Á myndinni á nafnspjaldinu sem hann skildi eftir var hann í hvítri skyrtu og með vel opið í hálsinn. Þegar hann kæmi ætlaði ég  að benda honum á að ég væri líka með fráhneppt í hálsinn.
“Hó, Rooney, sjáðu, ég er með fráhneppt í hálsinn. Eins og þú. Alveg eins!!“

Það var brauðmylsna á borðinu við hliðina á tölvunni, enda hafði ég keypt baguette í gær og borðað brauðið á meðan ég vann á tölvuna. Þegar ég kom út úr franska bakaríinu með baguette í litlum bréfpoka (svo baguetten stóð hálf út) sveiflaði ég ákaft höndinni sem ég hélt á brauðinu með – eins og franskmenn með baguette gera. Inni í mér var lítið gleðiljós yfir að hafa keypt franskt brauð. Ég setti líka upp svip sem gaf til kynna að ég tæki ekki eftir að ég hefði baguette í poka og að ég tæki stórar handsveiflur um leið og ég gengi.

Klukkan 09:00 hringdi dyrabjallan. Hmm… hugsaði ég. Rooney er stundvís í dag. Ég gekk út að dyrum og opnaði ákveðinn. Fyrir utan dyrnar stóð svarthærður maður, ekki Rooney. Þetta hlaut að vera fulltrúi hans.
„Bonjour,“ sagði maðurinn og ég svaraði kankvíslega: „Bonjour.“
Hann brosti, heilsaði mér með handabandi og hóf upp mikla ræðu á frönsku. „Nei, nei, nei… ég tala ekki frönsku. Komdu inn fyrir… “

Og nú hefst atburðarrás í nútíð: Svarthærði maðurinn gengur inn og svipast um. Hann er með furðustóra handtösku meðferðis. „Fáðu þér sæti,“ segi ég og bendi honum á stofusófann. Sjálfur sest ég á stól andspænis. Á milli okkar er sófaborð þar sem ég hafði stillt upp kaffikönnu og tveimur bollum. Maðurinn sest þó ekki heldur horfir á mig hugsandi og virðir svo fyrir sér sófann eins og hann sé í vafa um hvort hann eigi að setjast. Svo spyr hann: „Ert þú frú Gerhard?“ Hann fálmar niður í jakkavasa sinn og tekur upp minnisbók, sem hann opnar með einu æfðu handtaki. Á augabragði var hann kominn með penna milli fingrana.
Það tekur mig augnablik að skilja spurninguna. Heldur hann að ég sé kona?
„Nei,“ svara ég síðan og flissa.
„Nei, þú ert ekki frú Gerhard… mætti ég kannski fá að tala við hana?“
„Ég veit ekki hver frú Gerhard er.“
„En ég átti að hitta frú Gerhard hérna.“
„Það er einhver misskilningur. Ég heiti Snæbjörn. Ertu ekki á vegum Wayne Rooney?“
„Wayne Rooney? Ha, nei… Zidane sendi mig.“
„Zidane?… “ Sagði maðurinn ekki Zidane?  Ég hikaði áður en ég þorði að leggja fram næstu spurningu, þetta var orðið alltof klikkað. „Zidane hjá Real Madrid?“
„Hjá Real Madrid?“ Maðurinn horfir bæði undandi og hneykslaður á mig.

Nú sá ég að þetta samtal var komið út á algerar villigötur. Maðurinn stóð við sófann, ég sat í stólnum og milli okkar var sófaborðið. Við horfðumst opinminntir hvor á annan, hann var jafnráðvilltur og ég. Ég ákvað að standa upp og sagði nú frekar ákveðið:
„Hvert er erindið?“
Hann leit niður í minnisbókina sína og sagði svo: „Það get ég bara talað um við frú Gerhard. Er hún hér eða er hún ekki hér?“ Nú örlaði á pirringi í rödd mannsins.
„Það er engin frú Gerhard hér. Áttirðu ekki að hitta mig… Rooney kom hér í gær…?“
„Áttu von á henni?“ sagði hann stuttur í spuna.
„Ég þekki enga konu með þessu nafni og hún býr ekki hér.“ Ég hneppti aftur næstefstu tölunni á skyrtunni minni og horfði á eftir honum út um dyrnar. Hann leit á skiltið við dyrabjölluna og svo í minnisbókina sína. Skrifaði eitthvað hjá sér. Rétti svo fram höndina og kvaddi mig.

Dagar mínir í París… mon Dieu.

dagbók

Ein athugasemd við “París. Ert þú frú Gerhard?

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.