París. Aukafærsla 2.

Ég horfði á sjálfan mig í speglinum þegar ég burstaði tennur í kvöld. Þetta er sami maður og átta ára gamall reykti sígarettur fyrir framan Borgarapótek, hugaði ég. Ég hef ekki reykt sígarettur síðan. Ég man að bróðir minn spurði mig afhverju það væri reykingarlykt af mér þegar ég kom heim um kvöldið. (Mamma mín var inni í eldhúsi að leggja lokahönd á kvöldmatinn.) Eftir stutta umhugsun svaraði ég ósatt; ég hefði falið mig fyrir óvinum mínum á bak við bál sem við hefðum kveikt. Ég sá að hann horfði með vantrú á mig og ég skammaðist mín fyrir að ljúga.

Það eru liðin mörg ár. Ég hef enn ekki lært að ljúga, ég segi alltaf satt, en ég er meistari hálfsannleikans. Meistari í að fá fólk til að geta í eyðurnar. Skapa sína eigin mynd af sannleikanum.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.