Þegar ég var yngri var vinsælt að segja að fólk væri fífl. Eða almenningur er heimskur. Þetta er ekki lengur sagt, því svona tal sýnir að maður telur sig koma frá einskonar elítu sem hefur í það minnsta gáfurnar fram yfir pöpulinn. En stundum dettur mér í hug sú pólitísk órétta hugsun að fólk sé of heimskt eða fávíst fyrir lýðræði.
Í hinum lýðræðislega heimi hafa allir yfir tuttuga ára aldri kosningarétt en stór hluti þessa fólks annað hvort getur ekki eða nennir ekki að halda sér upplýstum í heimi sem verður sífellt flóknari. Því eru svo margir auðveld bráð ódýrra lausna; slagorða sem höfða til hins lægsta. Þegar maður eins og Trump er valinn til heimsins valdamesta embættis, eða sterkt hægrisinnaðir flokkar hér í Evrópu eru valdir í kosningum, er það bara vegna þess að fólk veit ekki betur. Í hugum meirihlutans er t.d. Trump lausn á þeirra vanda.
Allir hafa skoðun eins og allir hafa rassgat, sagði klámkóngurinn Hefner einu sinni. Eitt er að hafa einhverja skoðun og annað að hafa myndað sér skoðun byggða á vitneskju og rökum. Með tilkomu Facebook eru skyndilega allir vopnaðir gjallarhorni þar sem allir geta básúnað sínum skoðunum, sumum illa grunduðum sumum skynsömum. Ég hef stundum vælt yfir einsleitni og þráhyggju í íslenskum skoðanaskiptum, þar sem menn éta hrátt eftir hver öðrum, oft ódýrar skoðanir byggðar á einhverri sérkennilegri, perónulegri óvild.
Í tilefni þessara hugsana kíkti ég á Facebook (ég nota ekki FB aktívt, ég meina, ég hef Kaktusinn, yo) og það fyrsta sem ég sé er mann að nafni Þórarinn Leifsson orða þessa sömu hugsun: “Fyndið að sjá íslenska FB að jarma með eða á móti Fidel Castro :)”
Svo er auðvitað hin skoðunin að kjósendur telji elítuna og þá sem stjórna landinu ekki vera í neinu sambandi við fólkið í landinu (eins og sagt er). Elítan sópi til sín auðæfum landsins og gefi skít í almenning og vilji svo halda áfram að stjórna landinu. Við því bregðast kjósendur með því að kjósa óhefðbundna kandídata, frambjóðendur sem fólk telur að ekki sé í tengslum við elítuna, eins og Jón Gnarr, Birgittu, græningjann Uffe í Danmörku og Trump í USA.
Það var nú bara þetta sem ég vaknaði með í hausnum hér í París, sennilega af því ég svo svangur.