Hó. Síðasti dagur minn í París, þar sem ég á bókað flugfar í fyrramálið. Back to DK.
„I’m ready my Lord,“ syngur Cohen af nýju plötunni sinni yfir mér meðan ég skrifa Kaktus-dagbók í litlu stofunni með útsýni yfir í íbúðina á móti. Feiti kallinn, íbúinn, er kominn í baðslopp.
Nú ergi ég mig yfir að hafa drukkið nespressokaffið hér íbúðinni því það hefur nú þær afleiðingar að ég þarf að nota um það bil 90 mínútur til að ganga til næstu Nespressobúðar til að bæta það sem ég hef drukkið.
Þegar ég lá í rúminu í morgun, nývaknaður, reyndi ég að skipuleggja daginn í kringum þessa alltof tímafreku gönguferð sem kaffigræðgi mín hefur kallað yfir mig. Ég er í megatímaþröng.
Borðaði í gærkvöldi á veitingahúsinu hér í götunni. Þetta er ektafranskur veitingastaður, með franskan sósumat. Mér var tekið eins og fastagesti þótt ég hafi bara komið þar tvisvar sinnum áður.
„Gott kvöld, herra minn góður,“ sagði þjónninn brosandi út að eyrum þegar ég birtist í dyrunum.
„Gott kvöld til yðar,“ sagði ég eins og sannur aristókrat sem borðar úti hvert kvöld.
„Hvar má bjóða herranum að sitja?“
„Bara á mínum vanalega stað, ef mér leyfist,“ svaraði ég og gaf til kynna að ég var ánægður með að hafa status sem fastagestur.
„Að sjálfsögðu,“ sagði þessi brosmildi þjónn og leiddi mig til sætis. „Og hvað má færa herranum að drekka?“
„Komdu með þitt besta rauðvín,“ sagði ég… [nei, jók).
Lífið hér þessa viku í París hefur verið ánægjulegt, mér tókst að áorka ýmsu þótt ekki hafi litið sérlega vel út í upphafi. Ég vildi bara að ég gæti slappað aðeins meira af, ég pressa sjálfan mig í botn eins og sannur lútheran, skeiðklukka á lofti og flesta daga þjakaður af svengd og svefnleysi. Maður má ekki hafa það of gott. Ljóta vitleysan.
ps. Danska skáldið Jan Sonnergaard dó í vikunni, rétt rúmlega fimmtugur. Ég hitti hann einu sinni á Íslandi og kunni vel við manninn. (ég gaf út bók hans Radiator á íslensku, sem fékk titilinn Ristavél ef ég man rétt.) Sá að einn af þekktustu gagnrýnendum Dana hefur ekki haft sérstaklega mikið álit á Jan því í eftirmælum á Twitter segir hann án þess að nefna skáldið á nafn: „Hann var svo rosalega viðkvæm sál, að hann kom oft og iðulega eins og heimskt svín fram við aðra.“ Ekki fallega sagt.