París. 1.55.12,90

Á leið út á flugvöll, á leið til Danmerkur.

Ég skilaði ekki þeim afköstum í gær sem ég hafði sett mér. Allt gekk að óskum í upphafi dags. En klukkan 12:30 hafði ég tekið frá tíma til að ná í Nespresso-kaffihylki sem seld eru í sérstökum Nespressobúðum hér í París. Ég hafði fundið næsta afgreiðslustað við íbúðina og sá á vegakortinu að það tæki mig 45 mínútur að ganga hvora leið, svo hafði ég reiknað með að fá mér eitthvað að borða. Rúma tvo tíma ætti þessi leiðangur að taka.

Ég brunaði af stað og fann auðveldlega leiðina inn til Nespresso sem var langt í burtu, hinum megin við Signu, hinum megin við Notre Dame og hinum megin við langt í burtu. En ég var fljótur að fá afgreiðslu og skundaði aftur út með pokann með hylkjunum í. Á leiðinni hafði ég tekið eftir veitingastað, rétt við Nespressobúðina, sem mér leist vel á. Lítill og notalegur, og einhver fínn klassi yfir honum. (Í rauninni var það lítil, silfurlit dós með ólífuolíu sem stóð á borðum restaurantsins, og blasti við mér í gegnum glugga, sem ég féll fyrir.) Veitingastaðurinn var bara rétt handan við hornið frá Nespresso svo ég flýtti mér þangað inn. Lágvaxinn þjónn, með sérkennileg gleraugu, appelsínugul og svört, tók á móti mér en tilkynnti mér að allt væri þegar bókað í hádeginu, „því miður, herra minn, því miður.“

Það var vonsvikinn og svangur maður sem gekk út. Ég hafði ekki borðað morgunmat og var vægast sagt glorsoltinn. Á Boulevard Saint-Germain, sem er mikil breiðgata, sá ég veitingastað sem ekki var svo þéttsetin (og kannski var ástæða fyrir því), ég ákvað bara að taka áhættuna, opna inngöngudyrnar og ganga inn án þess að velta frekar vöngum. Greiðlega gekk að fá sæti og ég var fljótur að panta franska lauksúpu og til að bæta upp fyrir allt meinlætið hér í París pantaði ég að auki Leffe-bjór sem þarna var á boðstólum.

Súpan kom fljótt og var mér þá samstundis ljóst að ég hafði gert ljót mistök með að velja þennan veitingastað. Ég hafði auðvitað séð öll viðvörunarljósin en horfði framhjá þeim í öllum hungursvimanum. Súpan var borin á borð í agnarlítilli skál, og ofan í skálinni var að minnsta kosti hálft stykki af rifnum osti, brauðstykki flutu ofan á bráðnum ostinum og restin, ekki meira en fimmtungur af innihaldi súpuskálarinnar, var sjálf súpan. Mér tókst að sötra súpuna framhjá ostamassanum, en ákvað fljólega að dvelja ekki yfir þessum veitingum. Kallaði á þjóninn, bað um reikning, flýtti mér að borga og skundaði innilega reiður út í sjálfan mig beinustu leið á næsta áfangastað. Ég hafði sett skeiðklukkuna í gang þegar ég lagði af stað frá íbúðinni. Þegar ég kom til baka hafði ég notað nákvæmlega eina klukkustund og fimmtíu og fimm mínútur.

img_8677
Skeiðklukkan að loknum Nespresso-leiðangri

Ég kom heim um fimmleitið eftir að hafa lokið öllum mínum erindum. Enn sótti sulturinn að mér en ég ákvað að taka mér smáhvíld og lagðist í sófann með iPadinn og ætlaði að byrjaði að lesa bók sem ég fékk senda fyrr um daginn. Mér hafði ekki einu sinni tekist að stauta mig fram úr fyrstu línu sögunnar þegar síminn minn hringi. Ég leit á símaskjáinn. Númerið þekkti ég ekki, franskt símanúmer.

„’Allo,“ sagði ég.
„Talið þér frönsku, monsjör,“ var spurt.
„Nei, því miður geri ég það ekki.“
„Komið þér á veitingastaðinn Vagenende í kvöld?“
Nú byrjaði ég að hugsa mig um. Á ég stefnumót í kvöld, nei, ég átti ekki stefnumót í kvöld.
„Nei. Hvers vegna spyrjið þér? Er pantað borð í mínu nafni?“
„Eigið þér pantað borð? Komið þér í kvöld?“
„Nei…“ sagði ég hikandi.
Nú þurfti ég aðeins að fá tíma til að safna öllum upplýsingum um sjálfan mig svo ég þagnaði. Mér fannst ég kannast við nafnið á veitingastaðnum.
Svo sagði maðurinn í símanum.
„Ég fann nafnspjaldið yðar í poka.“
„Nafnspjaldið mitt í poka …?“
„Já, það var einhver sem gleymdi poka hér á veitingastaðnum og nafnspjaldið yðar er í pokanum.“
Í huganum fór ég yfir það fólk sem hafði nafnspjaldið mitt í Frakklandi, nei, ég gat ekki hjálpað þessum manni.
„Nú, það var verra en ég get því miður ekki hjálpað þér. Þakka þér fyrir að láta mig vita. Verið þér sælir.“
„Verið þér sælir, herra minn.“

Þetta er svo furðulegt, hugsaði ég, það er alltaf eins og ég sé staddur í sögu eftir Paul Auster. Er þetta svona hjá öllum? Er bara enginn sem segir mér það? Áður en ég sneri mér aftur að bókinni, velti ég fyrir mér eitt stundarkorn liggjandi í sófanum, afhverju í ósköpunum ég fengi svo oft svona sérkennileg skilaboð og upphringingar. Afhverju  væri ég alltaf í einhverri vitleysu með fólki?

Ég leit í kringum mig. Íbúðin var almyrk, ég hafði ekki haft fyrir því að kveikja ljós. Götulamparnir sendu örlitla skímu inn í gegnum gluggana. Ég lá kyrr. Ætli hann hafi meint greiðslukortið mitt í stað nafnspjaldsins míns? Ég fór ofan í veskið mitt og fann greiðslukortið. Allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Hliðartaskan mín! Hvar er hliðartaskan min? Maðurinn var ekki að tala um poka, hann var að tala um hliðartöskuna mína (bag). Þetta er sami veitingastaður og ég borðaði þessa óætu lauksúpu á.

Ég spratt á fætur, fálmaði mig inn í stofuna og flýtt mér að hringja á veitingastaðinn til að útskýra málin, sagði að ég kæmi og sækti töskuna. Grrrr. Annar göngutúr út á Nespressoslóðir. Skeiðklukkan í gang og ég hljóp út. 32 mínútum og 15 sek seinna hafði ég fengið töskuna og var á fullri ferð heim á leið.

Ég tók mynd af sama stað tvisvar í gær. Einu sinni klukkan að verða eitt á leið til Nespresso og einu sinni klukkan hálfsex á leið að ná í töskuna mína. Æ, hvað París er flott borg.

img_8674-2
Signa klukkan 12:54
img_8679
Signa upp úr klukkan 18:00

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.