Espergærde. Málfrelsi

Á síðustu dögum mínum í París (í síðustu viku) fékk ég bréf frá kunningja mínum, manni sem ég hef aldrei þekkt náið, en hef haft ágætt samband við í mörg ár. Í bréfin sínu, sem var ákaflega vinsamlegt, fer hann um víðan völl. En höfuðerindi hans var að hvetja mig áfram í Kaktusskrifum, eða að minnsta kosti að ég haldi áfram að skrifa það sem mér sýnist án tillits hvað fólki finnst: „Það er nefnilega orðið sjaldgæft að það ríki málfrelsi … Getur hugsast að það sé hvergi málfrelsi nema í skóginum þar sem enginn heyrir til? Eða tekurðu þér bara málfrelsi sjálfur?“

Í lok bréfsins segir hann meðal annars:  “Láttu það ekki hafa áhrif á þig og málfrelsi þitt þótt stöku menn lesi.”

Ég var auðvitað glaður að fá þetta velviljaða bréf en það vakti mig líka til umhugsunar um það sem ég skrifa og aðallega það sem ég skrifa ekki hér á Kaktusinn.

Undanfarna daga  hef ég lesið nokkrar af þeim íslensku skáldsögum sem koma út þessar vikurnar, svokallaðar jólabækur. Ég hef lesið þó nokkrar bækur en enginn hefur náð að hrífa mig sérstaklega mikið svo ég hef bara látið vera að tala um þær – og nú kemur það sem ég ætlaði að segja – vegna þess að ég hef ekki viljað valda höfundum og öðrum aðstandendum þessar bóka leiða eða eyðileggja fyrir þeim jólabókagleðina með því að básúna skoðanir mínar á bókunum.

Ég hef lært það í lífinu að einlægni og tilfinningsemi komi manni ekki alltaf þangað sem maður óskar. Stundum þarf maður að vera ískaldur og segja það sem er hunang í eyrum fólks. Mér er það satt að segja gersamlega ómöguleg, en ég verð vitni að því að þetta gerir fólk, blygðurnarlaus. Segir það sem viðmælandi vill heyra.

Ég hugsa bara að kannski sé stundum betra að satt megi kyrrt liggja. Og því hef ég ekki sagt orð um þessar bækur. Aftur á móti les ég nú kólumbískan höfund, Juan Gabriel Vásquez, sem ég er ánægður með.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.