Espergærde. Ljósmyndin

Þegar ég sat út á garðbekknum og borðaði harðfisk með kettinum mínum Gattuso færðist ró yfir mig. Skyndilega og alveg upp úr þurru hafði ég fengið þessa bráðalöngun í harðfisk. Það var stillt veður, blankalogn og kalt. Ég gaf mér góðan tíma til að naga fiskinn og fylgjast með kettinum berjast við sína bita. Gærdagurinn var kapphlaup við tímann, frá morgni fram á nótt, og ég hafði ekki tíma eða næði til að skrifa á Kaktusinn. Í fyrsta sinn í nær þrjár vikur sleppi ég degi úr við dagbókarskrif.

Í fyrrakvöld tæmdi ég gamla tölvu sem ég á og þar voru gamlar ljósmyndir sem ég bjargaði. Fullt af gömlum og góðum ljósmyndum. Ein mynd vakti sérstaklega athygli mína, tekin í sumarhúsi á Samsø fáum augnablikum áður en ég ákvað að selja mitt gamla Bjartsforlag. Ég sit í stól með handrit á hnjánum og les. Það sést svo greinilega á öllum mínum líkamsstellingum og andlitsdráttum að mér leiðist þessi lestur. Enda varð þetta handrit til þess að ég stóð á fætur og tilkynnti Sus að nú seldi ég forlagið. Það var enginn efi í mínum huga, engin eftirsjá. Ég hafði fengið nóg.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.