Espergærde. Hinir rögu og hinir djörfu

Það er kominn mánudagur og ég er alls ekki ánægður með að helgin fljúgi frá mér án þess að ég fái spyrnt við fótum. Það eina sem ég las um helgina voru dagblöðin, þau dönsku, og viðtal við Steinar Braga í Fréttablaðinu. Ágætt viðtal hjá Magga Guðmunds. Ég veit svo sem ekki hvað Steinar Bragi á við með að kalla rithöfunda aumingja sem ekki fjalla um hið dimma og andstyggilega í lífi manna í bókum sínum. Það er að minnsta kosti nokkuð harður dómur yfir þeim sem ekki eru jafnuppteknir og Steinar af ljótleikanum. Ég sé enga ragmennsku í að beina sjónum sínum að hinu fagra og glaða, þvert á móti. Eins og ágætur maður orðaði það: „manneskjan er bæði drullupollur og fallegt ljóð – og allt þar á milli …“ Annars fannst mér skemmtilegast og athyglisverðast að heyra vangaveltur Steinars um þriðjupersónu frásagnir.

Í gær kom nágranni minn, duglegi maðurinn, að máli við mig og spurði hvort við vildum ekki vera með í að kaupa stórt hús hér í Espergærde og gera það upp fyrir skrifstofur okkar. Mér finnst alltaf gaman að stórum verkefnum og tók honum vel. Vandinn er bara að við höfum það svo gott hér á lestarstöðinni og ég er stórefins um að við fáum betra skrifstofuhúsnæði. En við kíkjum á húsið.

Á föstudaginn setti ég mig í samband við Fødevarebestyrelsen hér í Danmörku. Án þess að hafa athugað það sjálfur hefur mér verið sagt að ómögulegt sé að flytja inn og selja ólífuolíuna okkar frá Ítalíu, þar sem hér sé svo mikið skrifræði í kringum slíkan innflutning. Hugmynd mín var bara að selja ólíufolíuna hér í forlaginu eins og við gerðum í Bjartsbutik í gamla daga. Nú bíð ég eftir svari.

Hingað hafa streymt tölvupóstar með spurningunni um hvaða handrit hafa ýtt mér fram af hengifluginu og fengið mig til að selja Bjart. Ég hef því miður ekki náð að svara öllum prívat og persónulega. Ég svara því í eitt skipti fyrir öll hér á Kaktusnum: Ég segi ekki hvaða handrit fór svo mikið í taugarnar á mér að ég ákvað að selja Bjart.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.