Kystbanen. Húskaupin

Það var aldeilis stór höllin sem við skoðuðum í gær. Tómas nágranni minn vill flytja skrifstofuna sína og sá þetta líka fína hús til sölu hér í Espergærde. 900 fm herrasetur, eins og það heitir í sölubæklingum. Húsið er flott en í skelfilegu standi. Það kostar örugglega 100 milljónir að gera húsið upp. Ekkert verður því af þessu ævitýraverkefni.

Í dag sit ég í lestinni, Kystbanen, á leið út á flugvöll og skrifa í dagbókina. Þar á ég fund með bóksölufólkinu á flugvellinum. Þau selja ægilegt magn af bókum og ef maður hefur áhuga á að selja margar bækur er betra að vera vinur þeirra.

Á fimmtudag flýg ég svo til  Íslands og verð yfir helgina. Hef verkefni: að passa lítil börn.

Annars hef ég verið spurður um hvernig gangi með leyniverkefnið. Satt best að segja hef ég ekki haft tíma til að sinna því af alvöru frá því ég kom frá París og ég er hálfleiður yfir því. Ég fékk áminningu áðan frá aðalmanninum á Íslandi. Hann setti deadline í janúar. Nú verð ég að hysja upp um mig buxurnar.

ps. Fékk tvo tölvupósta á síðustu 5 mínútunum. Fyrst kom mail frá netverslun sem heitir Boozt.com en ég hafði staðið við auglýsingaskilti þeirra á lestarstöðinni. Það fannst mér sérkennileg tilviljun því Boozt.com hef ég aldrei verslað við og ætti ekki að vera á póstlista þeirra. Næsta mail kom frá Københavns Lufthavn, sem er minn næsti áfangastaður, til að segja mér frá góðu tilboði á Baileys líkjör. Af einhverjum ástæðum tengdi ég þessa tvo tölvupósta við að ég dowloadaði Chrome vafrara frá Google fyrr í morgun. Nú virðist sem Google hafi downloadað njósnabúnaði inn í hausinn á mér svo nú geta þeir skoðað hvað ég hugsa og sé.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.