Espergærde. Raunir bókaútgefanda

Það var niðurlútur maður sem gekk út úr flugstöðvarbyggingunni í Kastrup í gær eftir marathonfund. Í sjálfu sér gekk allt vel, fékk selt það sem ég hafði ætlað mér að selja, innkaupsstjórinn var hinn vinsamlegasti svo það var ekki undan fundinum sjálfum að kvarta.

Við gengum á milli hinna fjögurra bókabúða sem eru innan veggja flugstöðvarinnar og hún, innkaupastjórinn, sagði mér frá hvernig þau í flugstöðinni hugsa, hvernig þau selja bækur og hvernig gestir bókabúðanna í flugstöðinni hegða sér. Það gilda önnur lögmál um bóksölu í flugstöðvum en í bókabúðum inni í borg. Fólk sem aldrei kemur inn í bókabúð kaupir oft bækur í flugstöðvum. Og eiginlega var niðurstaðan að þær bækur sem við gefum út passa ekkert sérlega vel inn í flugstöð, því gætum við ekki vænst að selja margar bækur í Kastrup.

Stundum finnst mér ég vera að tapa tilfinningunni fyrir bóksölupúlsinum og það pirrar mig en svo hef ég ekki áhuga á að gefa út margar af þeim bókum sem seljast, mér finnst þær bara svo leiðinlegar að ég get ekki lesið þær. Jojo Moyes, Anne B. Ragde, Lucinda Riley…

Þegar þessi tilfinning hellist yfir mig langar mig að fara gera eitthvað allt annað en að gefa út bækur.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.