Espergærde. Neyðarhemillinn

Ég er aftur sestur á minn stað, á bláa stólinn með útsýnið yfir brautarpallinn. Það er mánudagsmorgunn og maðurinn í gráa frakkanum, sem reykir vindil á morgnana á leið sinni til brautarstöðvarinnar, er sestur niður á bekkinn fyrir framan gluggann minn og púar vindilinn sinn í makindum. Aðrir eru ekki á stöðinni. Í gluggakistunni stendur sjónaukinn en ég læt hann eiga sig núna. Lestin hlýtur að vera nýfarin.

Ég kom með járnbrautinni í gær frá Kastrup og ferðin tók langan tíma. Einhver lestarfarþegi togaði í neyðarhemilinn í Hellerup svo lestin snarstoppaði og fór ekki aftur af stað. Eftir langa bið voru allir farþegar sendir  yfir í aðra járnbrautarlest. Það kostaði miklar tafir. Nýja lestin fylltist af fólki eftir því sem biðtíminn lengdist. Ég sat við hliðina á ungri stúlku með svart naglalakk sem talaði látlaust í símann. Þegar hún hafði lokið einu samtali hringdi hún í þann næsta og alltaf sagði hún það sama. Hún útmálaði hrakfarir sínar sem virtust vera leiðarþráður lífs hennar. Hjólið hennar hafði bilað á leiðinni til lestarstöðvarinnar, og nú sat lestin föst á teinunum og engin von um að lestarhjólin snerust aftur í bráð. Það voru ekki margir í heiminum jafnóheppnir og hún. Aftur og aftur endurtók hún setninguna: „Ég skil ekki hvernig ég get verið svona óheppin.“ Það var eins og viðmælendur hennar hefðu ekki mikið að segja því hún þagnaði ekki eitt augnablik. Hún sneri andlitinu frá mér, ég gat því ekki séð hvort tárin runnu niður kinnar hennar yfir þeirri miklu ógæfu sem hún mátti þola hvað eftir annað í lífinu. Hún var í fínum fötum og angaði af einhverjum ilmefnum sem hún hlýtur að hafa borið á sig áður en lagði af stað á hjólinu. Hún talaði hátt og ég hélt stutta stund að hún hefði einhvern veginn komist í samband við hátalarakerfi lestarinnar í gegnum símann sinn, svo hátt glumdi rödd hennar í lestarklefanum.

Á leiðinni heim frá Íslandi kláraði ég loks smásagnasafn Friðgeirs Einarssonar, Takk fyrir að láta mig vita. Ég hafði lesið fyrstu sögu bókarinnar fyrir nokkru en lagt hana svo til hliðar á meðan ég las eitthvað annað. Sölvi  hafði talað um að hann langaði að fá bók Friðgeirs í jólagjöf. Ég keypti því bókina handa honum niður í Eymundsson og ákvað að lesa mitt eintak til enda á leiðinni heim frá Íslandi. Safnið markar í sjálfu sér engin þáttaskil í íslenskum bókmenntum. Þetta er nú bara fyrsta bók ungs manns en ég er sannfærður um að það verði eitthvað úr Friðgeiri. Sögurnar hans eru ekki sérstaklega eftirminnilegar en honum tekst að skapa fína stemmningu í sögum sínum og þær eru ágætlega skrifaðar.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.