Espergærde. Sjóferð sem aldrei var farin?

Í gærkvöldi fékk ég tölvupóst. Ég fæ nokkuð marga tölvupósta á hverjum degi, eins og flest fólk á mínum aldri, og oftast eru þeir saklausir fyrir sálarlíf mitt. (Númi sem er 15 ára fær nánast aldrei tölvupóst. Hann fær skilaboð á Snappinu eða á Messenger.) Ég hef þann óvana að kíkja á símann minn þegar ég fer að sofa. Það er slæmur vani því fyrir kemur að ég fái póst sem heldur fyrir mér vöku. Skilaboðin sem mér bárust í gær – ef skilaboð má kalla því erindið var ritað í löngu máli –  voru meira en lítið óþægileg og eyðilögðu fyrir mér kvöldsvefninn.

Í tölvupósti, sem voru rituð af manni með hálfútlenskt nafn, rifjaði hann upp fyrir mér bátsferð, skemmtisiglingu, þar sem við tveir vorum meðal farþega. Í þessari sjóferð hafði maðurinn, að sögn, sagt mér frá bók sem hann á þeim tíma hafði í smíðum og ég átti að hafa verið svo áhugasamur um bókaskrif mannsins að hann tvíefldist allur við samtal okkar. Nú hafði hann sett lokapunkt og handritið var tilbúið. Síðustu árin hafði maðurinn ekki sinnt öðru en þessu verkefni og það hafði sett fjármál hans á annan endan.

Hann hafði leitað til nokkurra útgáfufyrirtækja í Reykjavík með bók sína en þrátt fyrir loforð hafi hann aldrei fengið svör við því hvort áhugi væri á skrifum hans. Bókarhandritið hafði hann sent inn fyrir nokkrum mánuðum. Nú, „í örvæntingu sinni“, snéri hann sér til mín um aðstoð, þar sem ég væri „hálfvegis ábyrgur“ fyrir bókinni.

Þessi löngu og raunalegu skrif las ég á rúmstokknum í næturmyrkrinu. Allir á heimilinu voru sofandi, enda klukkan að verða þrjú um nótt. Ég hafði setið yfir tölvuforriti mínu í gærkvöldi og gleymt bæði stað og stund. Ég lagðist undir sængina en gat ekki ýtt frásögn þessa ókunnuga manns úr huganum. Í raun rámaði mig ekki í bátsferðina sem maðurinn lýsti og ég velti fyrir mér hvort hann hefði ruglast á mér og einhverjum öðrum. Ekkert kannaðist ég heldur við nafn bréfritara sem þó var allsérstakt. Ég lá á bakinu og starði út í myrkrið og íhugaði hvað ég skyldi til bragðs taka. Þótt ég teldi mig ekki ábyrgan fyrir velferð þessa tiltekna manns truflaði lýsingin á bátsferðinni mig.

Það fyrsta sem ég gerði í morgun þegar ég settist niður á skrifstofuna var að skrifa til mannsins til að reyna að fá botn í þetta mál. Ég hafði varla sent tölvupóstinn, sem ég hafði orðað af mikilli nákvæmni, þegar ég fékk sjálfvirkt svar: „Þakka þér fyrir tölvupóstinn. Ég er á löngu ferðalagi og hef því miður ekki möguleika að svara bréfi þínu í bráð. Með vinsemd, …“ Hér var kvittað undir með nafni sem ég kannaðist vel við en var þó ekki sama nafn og nafn bréfritara frá kvöldinu áður. Nú varð ég undrandi.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.