Espergærde. Tilfinningarót

Á föstudögum byrja dagarnir á jógatíma. Sem er auðvitað sprenghlægilegt fyrir mann eins og mig,  stífan eins og tréplanka. Allar mínar hreyfingar stoppa á miðri leið miðað við það sem eðlilegt er, ég kemst bara ekki lengra í sveigjum og beygjum. Mér finnst ég ekki einu sinni geta dregið andann á sama hátt og aðrir. Ég hef bara ekki stjórn á neinu.

Mér þótti eiginlega athyglsiverðast þegar jógakennarinn, eftir eina öndunaræfinguna, fór að tala um að það væri eðlilegt að nú finndi maður fyrir tilfinningaróti. Ekkert væri eðlilegra að pirringur, reiði, sorg eða aðrar tilfinningar spryttu nú upp á yfirborðið. Ég fann ekki fyrir neinu, jú kannski undrun. Tilfinningarótið var einhvers staðar dýpra niðri, þar sem ég náði ekki til þess.

Þótt sumum þyki ég lokaður maður finnst mér ég sjálfur eins og opin bók, glaður og vinsamlegur. Ég veit auðvitað að ég er ekki alltaf margmáll og ég er varkár í umgengni við sumar manneskjur sem ég þekki ekki. Og ég verð eiginlega mjög oft hrærður, það þarf ekki mikið til að ég finn það sem í gamla daga var kallaður kökkur í hálsinum. Þegar ég er einn í eldhúsinu að elda mat eða ganga frá og hlusta á músik koma oft upp hugsanir sem kalla fram það sama tilfinningarót og jógakennarinn taldi eðlilegt að jógaæfingarnar vektu. Stundum kvikna hugsanir um foreldra mína sem nú eru ekki lengur á lífi; síðustu mánuði pabba þegar hann sat hálfsofandi í hægindastólnum í stofunni í Álftamýri, beið eftir dauðanum og bað mig um að lesa upphátt fyrir sig, oft texta úr Biblíunni. Eða mér verður hugsað til barnanna minna, eða vina minna og þeirra vandræða. Þessar hugsanir róta upp tilfinningum og ég má herða mig upp svo tárin renna ekki niður kinnarnar.

Annars skilst mér að einlægni sé hið nýja skammaryrði svo ég ætti því ef til vill heldur að brynja mig með hinni vinsælu kaldhæðni, það færi mér hugsanlega betur hér á Kaktusnum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.