Espergærde. Að sýna fyrir tómum sal

Í gærkvöldi, þegar ég sat hér inni í stofunni í mínum góða, djúpa hægindastól og reyndi að fylgjast með því sem gerist í heimi bókmenntanna, spilaði síminn minn tvo tóna: Pling plang. Ég er farinn að þekkja hvað þetta þýðir. Ég lokaði bókinni sem ég las, leit á símaskjáinn og fékk staðfest það sem ég hélt: „Your stats are booming! Kaktusinn is getting lot of traffic.” Slík skilaboð koma alltaf af og til. Þótt ég reyni að telja mér trú um að mér sé sama hvort nokkur maður kíki á Kaktusinn verð ég alltaf örlítið glaðari þegar ég fæ skilaboð um að einhverjir hafi lesið dagbókina. Í raun og veru skipti það mig ekki máli, ég skrifa fyrir sjálfan mig en samt kiltar það þegar ég fæ þessi skilaboð um brjálaða traffík.  Í ár hafa margir ólíkir einstaklingar lesið Kaktusinn, svo margir að væri Kaktusinn bók mundi Arnaldur vera í öðru sæti á metsölulistanum. Hehe.

Ég hitti einn af vinum mínum um daginn  – hann skrifar metsölubækur –  sem æsti sig upp úr öllu valdi yfir rithöfundum sem segjast vera sama um hvort þeir selji bækur sínar eða ekki. „Þetta er bara hræsni,” tilkynnti hann með sínum mikla raddstyrk. Gestir veitingastaðarins sem við sátum á litu upp frá mat sínum til að sjá hvort hætta væri á ferðum. Hann lét það ekki slá sig út af laginu. „Hver vill ekki selja bækurnar sínar, hver hefur ekki áhuga á athygli, hver hefur ekki áhuga á höfundalaunum?“ Hann hnussaði og bætti svo við. „Þetta er það sama og leikstjóri hefði það markmið að tæma leikhúsið á hverri leiksýningu. Eða sýna alltaf fyrir tómum sal. Enginn hefur áhuga á því.“ Svo mörg voru þau orð.

Ég hef þétta dagskrá í dag því ég þarf að hitta mann eftir hálf tíma. Ryksuga og skúra hér heima, fara á tennisæfingu og í matarboð í kvöld.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.