Espergærde. 18.12.18

„Sæll, ungi maður.“ Svona byrjaði bréf sem ég fékk í gær í öllum mínum önnum. Bréfritarinn, sem tók fram að hann vildi ekki láta nafns síns getið ef ég skrifaði um hann á Kaktusnum, kvartaði undan því að ég skrifaði of margar véfréttir. Ég nefndi ekki nöfn þeirra sem ég vitnaði til.

„Til dæmis í dag skrifaðir þú um yfirlýsingaglaðan metsöluhöfund. Þú nefnir hann ekki á nafn og ég hef heyrt í tveimur vinum mínum sem hafa spurt mig hver þessi metsöluhöfundur gæti verið. Geturðu ekki bara nefnt fólk með nafni í stað þess að setja af stað ágiskanir og spekúlasjónir?“

Eiginlega kemur þessi árátta hjá mér að nefna sjaldan nöfn hér á Kaktusnum af lestri mínum á Knausgaard. Mér varð svo oft hugsað til þeirra sem hann sviðsetti á eigin sviði í bókum sínum. Það er ekki bara kona Knausgaards og börn sem leika stórt hlutverk á síðum Min kamp heldur er það líka fólk sem Knausgaard hittir á förnum vegi og fá stundum hlægilega útreið.

Ég gæti svo sem skrifað að „Arnaldur Indriðason, metsöluhöfundurinn sem ég hitti á veitingastað í fyrradag“ (þetta er dæmi, ég hef ekki verið í talfæri við Arnald nýlega). Svo þyrfti Arnaldur að svara fyrir það sem ég fabúlera hér í kaktusskóginum. Ef ég ýti fólki inn á Kaktussenuna er það að minnsta kosti eftir nokkrar vangaveltur. En ég get upplýst hér, með góðri samvisku, að metsöluhöfundurin, sem um var rætt í dagbókarfærslu gærdagsins, er danskur.

Annað bréf fékk ég svo frá Guðmundi Andra Thorssyni sem beindi athygli minni að því að mér hafði orðið á að kalla  stjórnmálaforingjann Birgittu Jónsdóttur, Birgittu Halldórsdóttur. „Halldórsdóttir er svo ástarsagnahöfundurinn fyrir norðan,“ eins og hinn góðviljaði ritstjóri bendir réttilega á. Það er leiðrétt. 

Nú er sunnudagur, átjándi dagur desembermánaðar og bráðum kemur árið 2018. Það er að segja þegar 2017 er liðið. En það breytir ekki því að 18. des. er fín dagsetning til að fara út í heiminn. Ég á stefnumót klukkan tvö og svo aftur í kvöld klukkan átta, annað stefnumót.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.