Espergærde. Óvænt gjöf

Bráðum koma jólin og ég er búinn að leggja fram óskalista að beiðni barnanna minna sem vilja gefa mér eitthvað til að gleðja mig. Á óskalistanum er alltaf það sama, lakkríspípa, Pilot penni (0,4 mm), Pepsi Max, vindill, bjórflaska og sokkar.

Ég áttaði mig á því þegar ég var búinn að leggja fram óskalistann að ég hefði átt að bæta við einu kerti. Í stuttum göngutúr niður á strönd, sem liggur hér í 10 mínútna göngufæri frá húsinu mínu, varð mér hugsað til þeirra jólagjafa sem höfðu glatt mig mest. Í hugann kom fyrst óvænt kertagjöf.

Ég var nýfluttur í lítið raðhús í póstnúmeri 108 í Reykjavík og ég stóð á miklum tímamótum. Ég bar allar tilfinningar utan á mér og inni í mér sauð á taugakerfinu. Ekki bætti úr skák að það var þorláksmessukvöld og jólin framundan. Ég hafði rétt lokið við að borða kvöldmat seint um kvöld (maður vann alltaf lengi á Íslandi) þegar, mér til furðu, hringt var á dyrabjöllunni. Í mínum huga var ég langt frá því að vera vinsælasti maður landsins. Á dyratröppunum stóð maður og hann hélt á litlu og mjóu kerti, á því var lítill miði. Þegar augu mín höfðu vanist myrkrinu sá ég að á tröppunum stóð enginn annar en Helgi Grímsson, minn góði vinur, maður sem ég hef dáðst að allt mitt líf. Hann rétti mér kertið og sagði (um leið og hann brosti sínu feimnislega brosi): „Ég er hérna með smáræði handa þér. Gleðileg jól.“ Hann hafði ekki tíma til að stoppa, hann vildi bara færa mér þennan glaðning. Og svo kvaddi hann og gekk út í vetrarkvöldið.

Þessi gjöf hafði svo mikla þýðingu fyrir mig að mér verður aftur og aftur hugsað til þessa kvölds fyrir nærri því fimmtán árum og hvað þessi litli vinarvottur var mér mikilvægur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.