Espergærde. Maðurinn með blómvöndinn

Á leið minni í vinnuna í morgun var ég stoppaður af eldri konu sem var úti að ganga með hundinn sinn. Eða það leit út fyrir það að minnsta kosti. Við nánari skoðun var líkara að hún hefði rétt brugðið sér af bæ, því hún var ekki í neinni yfirhöfn, bara á þunnum, rósóttum kjól. Á fótunum hafði hún einskonar inniskó, svarta opna skó með nokkuð háum hæl. Þegar ég kom hjólandi á fullri ferð upp brekkuna veifaði hún til mín og ég var fljótur að skilja að hún vildi að ég næmi staðar.
„Góðan daginn,“ sagði ég um leið og ég steig af hjólinu og beið eftir að hún bæri upp erindið.
„Ekki mættir þú manni gangandi með blómvönd?“ spurði hún og starði á mig með sínum gráu, gömlu augum, fullum af spurn.
„Nei, ég mætti engum, ekki neinum með blóm,“ sagði ég.
„Þakka þér fyrir vinur,“ sagði hún og missti algerlega áhugann á mér. Þar með lauk samtalinu.

Ég hélt áfram för minni en gat ekki ýtt frá mér  spurningunni um manninn með blómvöndinn. Sennilega fæ ég aldrei svar við ráðgátunni um hvað hafði gerst á þessum mánudagsmorgni milli konunnar á blómakjólnum og mannsins með blómvöndinn.

Annars var ég svolítið undrandi á látunum, sem mér var bent á að geisuðu á Íslandi, í kringum bókaskreytingu Jón Ásgeirs á bók Vigdísar Grímsdóttur. Ég get ekki lifað mig inn í að glæpur Jóns Ásgeirs sé svo stór að allir gangi af göflunum. Írafár. Listamenn allra landa sameinast í að fá hugmyndir lánaðar, sérstaklega ef þær eru góðar, og endurnýta þær. Sumir dulbúa það vel, aðrir ekki eins vel. Góð hugmynd er góð hugmynd og synd að nýta hana ekki vel. Yo.

img_8755
Jólatrésleiðangur

Ó, ég má ekki gleyma því að ég sótti jólatré úti í skógi, vopnaður sög. Ég stal ekki trénu, fékk það heldur ekki lánað. Ég borgaði fyrir að saga jólatré. Ekki veit ég hvort verðið var sanngjarnt, eitt jólatré í skógi kostar það sama og ný skáldsaga í danskri bókabúð. Svo flutti ég tréð heim til að gefa stofunni heima hjá mér svolítinn jólasvip.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.