Espergærde. Happy jólabókaflóð

„Hefurðu séð þetta?“ spurði mig ágæt kona sem ég þekki úr danska bókabransanum. Hún stóð ekki augliti til auglitis við mig eins og mætti halda. Þetta var upphaf og eina setning tölvupósts sem ég fékk frá þessari hrifnæmu, dönsku bókakonu. Með póstinum fylgdi myndin sem prýðir höfuð dagbókarfærslu dagsins. Happy jólabókaflóð er yfirskriftin og svo kemur rómantísk lýsing á jólalífi hins bókhneigða Íslendings.

Þegar ég virti myndina fyrir mér leitaði hugur minn auðvitað til daganna þegar ég var útgefandi á Íslandi. Áttatíu prósent af öllum tekjum litla forlagsins míns komu í desember og því var vel heppnaður jólamánuður spurning um líf eða dauða fyrir mig og sú vitneskja réði bæði athöfnum og hugsunum síðustu mánuði ársins. Sem betur fer fyrir rithöfunda, bókmenntaáhugafólk og útgefendur bóka er enn áhugi á Íslandi fyrir að gefa bækur í jólagjöf. Bók og bækur eru enn á óskalista margra. Auðvitað væri draumastaða að sala á bókum dreifðist meira yfir árið. Það hefði létt róðurinn og gert lífið bærilegra á margan hátt. Mér datt þó aldrei annað í hug en að dásama þennan tíma í útgáfunni, jólabókaflóðið. Þetta var mín lífæð.

Nú heyrir maður stundum áhugafólk um bókmenntir og rithöfunda tala um hvað jólabókaflóðið sé vont fyrirbæri. Mér hefur alltaf fundist þetta hugsun hins dekraða, þess sem allt vill fá upp í hendurnar. Í stað þess að dásama þann íslenska sið að gefa bækur í jólagjöf er fundinn hinn versti vínkill á fyrirbærinu: það er of mikill æsingur í kringum bækur í desember.

Þessu má kannski líkja við að síldarsjómenn bölvi síldartorfum eða loðnuvertíð. Afhverju getur síldin ekki bara komið jafnt og þétt svo við getum veitt í rólegheitum allt árið? Áhugi fólks á bókum í Íslandi hefur aldrei verið nægur til að fjöldinn þyrpist út í bókabúð og kaupi bók til eigin nota. Afhverju getum við þá bara ekki gefið bækur í jólagjöf sumar sem vetur svo við, hið viðkvæma bókafólk, þurfum ekki að horfa upp á þennan æsing? Jólin eru þann 24. desember, ár hvert. Verður því breytt?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.