Espergærde. Ráðgjafi sem starfsheiti

Jólin hafa tekið yfir hér í Danmörku. Númi og Davíð eru komnir í jólafrí og sama gildir um önnur börn hér í landi. Það var því algerlega kyrrt í morgun og ekki sála á ferli þegar ég hjólaði litla hjólatúrinn minn upp á forlagsskrifstofuna. Ég mætti hvorki bíl né gangandi vegfarendum. Allir hafa sofið frameftir í dag.

img_8762
Enginn á ferli í morgunsárið í Espergærde.

Fyrir nokkrum dögum hafði samband við mig kona sem sagðist hafa unnið lengi hjá Gyldendal en væri nú starfandi sem ráðgjafi í bókabransanum. Mér hefur alltaf fundist það  dálítið dularfullt starfsheiti, að vera ráðgjafi. Hún spurði hvort við værum til í að drekka kaffibolla með henni. Það gátum við vel gert, að drekka kaffibolla með ráðgjafa er ekki slæmt. Við mæltum okkur því mót á skrifstofunni hjá okkur, í gömlu lestarstöðinni í Espergerde.

Í gær kom hún svo, ráðgjafinn. Virðuleg kona á sextugsaldri. Hún fékk sinn kaffibolla.
„Eigiði mjólk í kaffið? Eða eruði harðar týpur sem drekkið kaffið svart?“
„Við drekkum kaffið svart og sykurlaust en við eigum mjólk. En ég tengi ekki saman að drekka svart kaffi og vera harður nagli.  Ég er ekki harður nagli en drekk kaffið samt svart.“
„Þú ert nú þekktur fyrir þínar aggressionir hér í bókabransanum,“ segir hún og brosir stríðnislega.
Við settumst niður við borð í gamla biðsalnum. Það var greinilegt að hún var vön að sitja til borðs með ókunnugu fólki. Hún hafði það gott. Eftir stutt spjall um stöðu bókaútgáfu í Danmörku, þar sem hún kynnti sig og starfsemi sína bar hún upp hið eiginlega erindi. Erlent útgáfufyrirtæki hafði haft samband við hana og beðið hana að hafa milligöngu um að kanna hvort áhugi væri fyrir því að við seldum hinu útlenda útgáfufyrirtæki forlagið okkar, Hr. Ferdinand.

Auðvitað kom þetta flatt upp á mig. Ég sagði strax að ef ég seldi forlagið væri það án mín. Ég sæi ekki sjálfan mig vinna fyrir aðra. Ég hefði ekki hæfileika til þess. Sus var á sama máli og vildi gjarnan „leika með hugsunina“ um að selja,  eins og þeir segja hér í Danmörku. Nú er kannski komið að tímamótum fyrir mig. Að finna mér stað utan bókabransans. Hver veit? Ég gæti gerst ávaxtasali eða selt sykurhúðaðar möndlur á torgi.

ps ég hafði lofað bréfritara einum að birta mynd af skrifstofubyggingunni. Ég á ekki í vandræðum með að kalla fram slíka mynd. Myndin er hér yfir hausnum á færslu dagsins.

 

dagbók

Skildu eftir svar