Espergærde. Að endurfæðast

Ég vaknaði í morgun við að hugmyndin um endurfæðingu á miðjum aldri bankaði og vildi fá athygli mína. Ég hugsaði með mér að það væri sennilega gott fyrir alla þá rithöfunda sem berjast um athygli nú á endaspretti jólabókaflóðs. Hugsa sér ef allar bækur væru nú merktar nöfnum sem enginn þekkti því allir væru endurfæddir og enginn hafði sögu til að halla sér að. Hver ætli Arnaldur Indriðason sé? Hver er Steinunn Sigurðarsdóttir?

Þetta var nú það sem leitaði á hugann í morgun. Endurfæðingin. Ég fór á fætur, fór í sturtu, klæddi mig í sokka, hreina sokka. Fór í hrein föt. Í dag ætla ég ekki að vinna við að selja bækur. Í dag ætla ég að þrífa húsið hátt og lágt. Í gær keypti ég sápu í verslunarmiðstöðinni hér í bænum. Þar voru margir, allir áttu erindi í búðir.

Í búðinni hitti ég mann sem ég kannast við.
Hann: Hæ, Zlatan.
Ég: Ert þú hér.
Hann: Ég frétti að þú værir byrjaður í jóga. Þú skuldar bjórkassa. Næst þegar þú kemur á fótboltaæfinu kemurðu með bjórkassa. Við vorum sammála um það, við látum ekki bara eins og ekkert sé þegar þú byrjar í jóga og skrópar á æfingu. Þú kemur með bjór næst.
Ég: Auðvitað kem ég með bjór. Sjáumst.
Ég nennti ekki að tala lengur við þennan ágæta mann. Ekki á þessum nótum.

Á meðan ég skúra gólf ætla ég að hlusta á jólakveðjur frá Íslandi á Rás 1. Mér finnst svo gott að heyra óskina um farsælt komandi ár. Farsæla er svo gott orð. Ég óska þér sæla för í gegnum komandi ár.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.