Espergærde. Farsælt komandi ár, Snæi minn

Ég hafði legið lengi vakandi þegar ég áttaði mig á að það var aðfangadagur. Góðan daginn og gleðileg jól, Snæi minn, sagði ég við sjálfan mig og bætti svo við, farsælt komandi ár. Ég lá kyrr um stund eftir að hafa sparkað af mér sænginni. Klukkan lýsti 5:36. Ég var tilbúinn að fara á fætur. Ég smeygði mér framúr og læddist niður. Gætti þess að vekja ekki Sus sem svaf þungt.

Ég kveikti ljósin í eldhúsinu og hellti upp á kaffi, fór út í póstkassa til að ná í dagblaðið. Úti var nístandi kuldi, rakur kuldi, en himinn var stjörnubjartur og hvergi ljós í gluggum. Það er aðfangadagur, hugsaði ég. Hápunktur ársins, eða lápunktur fyrir suma. Jólin eru viðkvæmur tími, einhvernveginn magnast allar tilfinningar. Gleðin, einsemdin og allt þar á milli verða sterkari þegar jólin koma. Jólin eru líka skrýtin, þessi andlega hátíð sem nú hefur svo lítil tengsl við andann, en þess betri við hið veraldlega.

Ég settist út á garðbekkinn í næturmyrkrinu með dagblaðið í skautinu og andaði að mér svölu loftinu. Kötturinn minn Gattuso settist  á bekkinn við hlið mér og horfði jafnspekingslega út í loftið og ég.

Í gær kom Sölvi og Ingibjörg. Það gleður mig mjög að þau eru hér yfir jólin.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.