Espergærde. Póstmaðurinn og hamborgaravélin

Í gær var hringt tvisvar sinnum á dyrabjöllunni. Ég var nýkominn heim eftir langan og fínan göngutúr í sólinni. Mig grunaði  að þetta væri pósturinn, hann hringir alltaf tvisvar. Fyrir utan dyrnar stóð hann í sínum rauða póstjakka, póstmaðurinn með kanínutennurnar. Hann er feiminn, ungur maður, lítillátur og glaður. Að minnsta kosti hýrnar hann allur þegar maður víkur að honum góðu.

„Góðan daginn, ungi póstmaður,“ segi ég.
„Góðan daginn…“ hann hikar því hann veit ekki hvað hann á að kalla mig. „Ég er með bréf til þín. Ég tók eftir því að póststimpillinn er frá Íslandi svo mér datt í hug að einhver af vinum þínum hafi munað eftir þér fyrir jólin. Ég vildi flýta mér að vekja athygli þína á því.“
Hann rétti mér lítið áritað umslag og virti mig fyrir sér á meðan ég grandskoðaði umslagið. Bókstafirnir voru skrifaðir með rauðum penna og póststimpillinn var sannarlega frá Íslandi.

Póstmaðurinn með kanínutennurnar hefur tekið upp þann sið að hringja alltaf á dyrabjöllunni ef hann sér að við erum heima. Hann virðist þyrsta eftir að einhver tali við hann. Hann ljómar þegar maður stríðir honum eða spyr hvernig honum gangi. En best þykir honum þegar ég gef honum harðfisk. Ekkert tækifæri lætur hann ónotað til að minnast á hvað honum þyki gott að narta í harðfisk á meðan hann horfir á myndbönd í stofunni í litlu blokkaríbúðinni sinni. Hann á að sögn stórt safn af myndböndum. Í fyrrasumar fékk hann mann til að smíða hillur fyrir safnið. En hann hefur aldrei séð Godfather.

Bréfið reyndist frá Effa, hlýlegt klapp og góðar kveðjur fyrir jólin sem yljaði mér um hjartarætur. Merkilega gaman að fá bréfpóst.

Jólin voru hátíðleg í gær. Öndin, rauðkálið, sykurkartöflurnar og sósan. Ummm. Að hafa Sölva og Ingibjörgu lyfti hátíðleika jólanna enn hærra. Og eins og ég hafði óskað  fékk ég bæði lakkríspípur og bjór í jólagjöf. Ég fékk meira að segja skóflu til garðvinnu, ullarteppi frá Íslandi, ekta dagatal, gleraugu með 2,5 í styrk, bækur og hamborgaravél. Börnin mín gera grín að hæfileikum mínum til að forma hinn fullkomna hamborgara.

Í morgun stillti ég gjöfunum upp á garðbekkinn minn til að taka mynd. Gattuso fylgdi mér út eins og alltaf. Myndin er hér að ofan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.