Espergærde. Ofar mínum skilningi

Stormurinn Urd siglir nú yfir Espergærde með öllu sínu regni. Ég keyrði Sölva og Ingibjörgu á lestarstöðina og sá varla út í gegnum bílrúðuna fyrir regni. Þau eru aftur á leið til Íslands. Vildi að það væri enn auðveldara að ferðast milli Íslands og Danmerkur. Þetta var góð heimsókn.

Hér sitjum við eftir, við fjögur. Davíð situr og teiknar. Þeir Sölvi hafa setið með blýanta á lofti síðustu daga. Númi burstar tennurnar með nýja tannburstanum sínum. Sus vesenast inni í eldhúsi. Ég sit aftur á móti kyrr úti í horni og skrifa dagbók við sama skrifborð og Palli þýddi Gamlingjann. Pappírinn af jólapökkunum er kominn út í ruslatunnu.

Í dag ætlum við öll, nema Númi, í bíó. Hann er of mikill unglingur til að nenna að láta sjá sig mið foreldrum og litla bróður í kvikmyndahúsi. Við ætlum að horfa á furðuskepnumynd J.K. Rowling. Annars hlakka ég til að nota daginn til að lesa Linn Ulmann, De urolige, söguna um foreldar hennar, Ingmar Bergmann og Liv Ulmann.  Ef ég væri enn með neon-klúbb mundi ég ekki hika við að setja þessa bók í klúbbinn. Aldeilis flott bók. Og ég hlakka líka til að horfa á fótboltaleik í sjónvarpinu. Þetta er fullkominn dagur til að sjá hina fullkomnu íþrótt, fótbolta.

ps. Las bók Jon Fosse, norska skáldsins sem fær svo mikið hrós, Andvaka. Þetta er stutt bók, ekki meira en 70 síður. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með bókina. Aldrei hefði ég valið hana í minn neon-klúbb. Ég hafði gert mér miklar vonir um að lesa eitthvað sem rifi mig upp úr stólnum af hrifningu. Bókina las ég á klukkutíma og ég held að ég hafi notað að minnsta kosti annan klukkutíma í að furða mig á bókinni og viðtökum gagnrýnenda sem hafa lofað verkið einum munni. Eftir lesturinn heyrði ég sjálfan mig segja upphátt, algerlega ósjálfrátt: „Hvað var nú þetta?“ Svo undrandi var ég. Eitthvað fer fyrir ofan minn skilning hér. Las af þessu tilefni dóm VG, norska dagblaðsins um bókin sem segir m.a. “I korte små sætninger favner han hele verden. Personerne bliver så levende, ordene føles som nyfødte. Halleluja!”

Þetta er aldeilis fyndið, því helsta einkenni bókarinnar er hinar löngu samtengdu setningar. Og þær eru síðulangar, setningarnar. Eitthvað er skakkt hér.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.