Espergærde. Framkvæmdaáætlunin

Held áfram að lesa um líf Ingmars Bergmans, Liv Ullmanns og dóttur þeirra Linn Ullmanns. Ingmar Bergman er svakalegur karakter. Skemmtilegt.

Í gær fórum við að sjá kvikmynd byggð á bók J.K. Rowlings; Furðuskepnur og hvar þær er að finna. Davíð stóð fyrir kvikmyndavali. Satt að segja kom mér kvikmyndin  á margan hátt á óvart. Í fyrsta lagi er kvikmyndin tækniundur, öll þessi fiff eru svo vel gerð að maður getur ekki annað en heillast. Sagan er bæði skemmtileg og öll umgjörð, New York í byrjun síðustu aldar, er flott. Ég hélt eiginlega að ég myndi sofa kvikmyndina af mér eins og ég geri oft þegar um óáhugaverðar kvikmyndir er um að ræða. En ég var glaðvakandi og mér var skemmt.

Hér líða dagarnir í mikilli ró. Göngutúrar, bóklestur og fótboltaáhorf. En framundan er niðurrif á eldhúsi. Næstu daga pökkum við diskum og öðrum eldhúsáhöldum í kassa og þann fyrsta janúar 2017 byrjum við að skrúfa gömlu eldhúsinnréttinguna niður og bera hana út. Þann 2. janúar koma verkamenn sem brjóta upp gólf og leggja parkett á gólfin í eldhúsinu og uppi í ganginum. Þegar gólfið er tilbúið er röðin komin að eldhúsmönnunum, rafvirkjunum og pípulagningamönnunum að setja upp nýja eldhúsið. Hér verður sem sagt allt á öðrum endanum fram í febrúar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.