Espergærde. Taskan mín

Ég á ágæta leðurhliðartösku sem ég nota daglega til að flytja hluti í. Einhvern veginn safnast saman alls konar dót í töskunni minni. Ég er ekki nógu duglegur að tæma hana. Í morgun þegar ég var einn á róli í myrkrinu og vantaði litlu bleiku minnisbókina mína náði ég í töskuna til að athuga hvort minnisbókin leyndist þar. Það var tilefni til tiltektar.

Í töskunni var:
Bleik minnisbók
Bæklingur frá Hanser Verlag (frá bókamessunni í Frankfurt)
Katalogur frá Stock útgáfunni frönsku (frá ferð minni til Parísar í nóvember)
Bæklingur frá Norstedts (frá bókamessunni í Gautaborg)
Vindill sem ég keypti í Vico del Gargano sumarið 2015.
Eldspýtustokkur merktur Pigalli hótelinu í Gautaborg (frá bókamessunni í Gautabog 2016)
Eldspýtur frá Hotel Brufani Palace, Perugia
3 Pilot pennar (0,4 mm) (uppáhaldið mitt)
Penni merktur hóteli í Ochsenfurt (júni 2016)
Penni frá SAS flugfélaginu (ég stel pennum í tugatali ár hvert)
Penni frá Pure hóteli í Frankfurt
Lyklakippa án lykla (verðlaun frá kappleik við franskt fótboltalið)
Parísarkort (frá ferð minni til Parísar)
Gleraugu (styrkur 2,0)
Harður diskur 1TB (backupdiskurinn minn)
Reikningar til greiðslu í þessari viku
The Buried Giant, Kazuo Ishiguro (sem ég hef alltaf við höndina)
The Whisler, John Grisham (agentinn sendi mér bókina, ég er ekki búinn að lesa)
3 plast tannstönglar í plastpoka
Hleðslutæki fyrir iPhone
iPad (ég lagði iPadinn í töskuna í morgun)
2 evrur (mynt)
Fylling í penna (afgangur af ónýtum penna)
Blýantur (gulur Pluto)
Bréfaklemma (byrjuð að ryðga)
Ga-Jol pakki. (Gulur klassískur Ga-Jol)
Tómur bréfpoki merktur Arnold Busck
Nafnspjöldin mín. (Snæbjörn Arngrímsson, publisher)

Nú er hér ungur drengur í heimsókn. Marcel vinur Davíðs gisti í nótt og nú sitja þeir og spila tölvuleik. Númi vinnur að skólaverkefni inni í eldhúsi og Sus tæmir skúffur í eldhúsinu, undirbýr niðurrif eldhússins. Klukkan tólf eigum við Númi pantaðan tíma á tennisvellinum. Síðast vann Númi (í fyrsta sinn) svo nú er runnin upp stund hefndarinnar.

 

dagbók

Skildu eftir svar