Espergærde. Hús í myrkri

Duglegi maðurinn, Thomas, er kominn með nýtt húsverkefni í hausinn. Ég fékk SMS frá honum í gær þar sem hann bauð til tennisleiks klukkan 14:00 og svo óvænt atriði í lok leiks. Ég þáði auðvitað boðið. Ég hafði náð að vinna fjórar klukkustundir í gær sem er nýtt met í jólafríinu.

Tennisleikurinn bauð bæði upp á spennu og hraða (ekki hlægja). Mér tókst að vinna fyrstu lotu 6-2 en tapaði seinni lotu 2-6. Svo kom að hinu óvænta. Bíltúr niður á Strandvejen til að skoða hús sem Thomas vill kaupa og gera upp. Það var myrkur þegar við komum að villunni svo það var erfitt að sjá í gegnum sortann hvað hann girntist. Í dag ætla ég að fara í göngutúr til að skoða fasteignina og kannski tek ég mynd af herlegheitunum fyrir lesendur Kaktusins. Alltaf gaman að sjá falleg hús.

ps. Las leikdóm Jóns Viðars um sýningu Þjóleikhússins á Óþelló. Jón Viðar var ekki ánægður og notar mörg orð til að lýsa fyrirlitningu sinni á meðferð Þjóðleikhússins á verki Shakespeares. Ég veit ekki hvort Jón Viðar hefur rétt fyrir sér en hann er ekki hræddur við að segja skoðanir sínar og benda á nekt keisarans þegar hann er án fata. Í undangenginni bókavertíð hefði útgáfuheimurinn kannski haft gott af því að fá einn Jón Viðar inn á sviðið. Sumar af þeim íslensku bókum sem ég las fyrir jólin, og þær voru margar, voru að mínu mati ekki neitt til að hrópa fyrir þótt gagnrýnendur gæfu þeim bæði stjörnur og hjáróma húrrahróp. Hvorki íslenskar bókmenntir né framtíð íslenskrar bókaútgáfu hafa  gott af því að hálflélegum bókum sé hossað á þennan hátt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.