Árið 2017 er boðið velkomið í mitt hús. Og ég þakka fyrir árið 2016 sem var gott ár. Ég veit ekki hvort ég muni minnast ársins 2016 sem míns besta árs en ég minnist þess að minnsta kosti sem ferðaársins. Heimsreisu lauk 1. júní 2016.
Ég hef verið að hugsa um áramótaheit. Hvað vill ég með árið 2017? Það er góð spurning. Á meðan ég sat í áramótaveislu hjá nágrönnum mínum og félögum, Lars og Piu, naut þeirra góðu gestrisni, hugsaði ég ákaft um hvað væri mitt besta áramótaheit. Hvað er það sem ég stefni að? Eitt heit get ég vel upplýst hér, það kom upp í huga mér á þessari skrifuðu stundu: Ég skrifa dagbók einu sinni á dag hið minnsta. Hér með og fram eftir öllu ári 2017 birtist færsla á Kaktusnum einu sinni á dag, ef ekki tvisvar.
Þótt ég hafi velt í miklum ákafa fyrir mér góðu áramótaheiti hef ég enn bara óljósar áætlanir, það er margt sem kraumar í hausnum á mér en ekkert sem ég er tilbúinn að gefa opinbera yfirlýsingu um.
Í gær var ég upptekinn maður, og gat ekki fengið frið í sálina til að skrifa á Kaktusinn. Ég braut niður eldhúsið og hreinsaði út alla skápa og skúffur. Braut niður eyju og flutti ísskáp, ofn og uppþvottavél. Þetta var dagsverk. Nú stendur eldhúsið allsnakið og bíður þess að fá betri búning.
Hér er mynd af hinu nakta eldhúsi og að ofan er mynd af leifum eldhússeyjarinnar.

ps. Ég hef aðeins fylgst með viðbrögðum við dómi Jóns Viðars á Óþelló. Ekki get ég varist því að verða fyrir vonbrigðum. Til dæmis yfir viðbrögðum jafn góðs manns og Hallgríms Helgasonar. Hann skrifar langa greinargerð um verkið og þýðingu sína og jafnfram svarar hann dómi Jóns Viðars. Eiginlega er niðurstaða skrifanna að persóna Jóns Viðars sé ómöguleg. Jafn ómöguleg og persóna Davíðs Oddsonar, Sigmundar Davíðs. (Meira hvað menn njóta þess að gera lítið úr persónum þessara manna. Geta menn bara ekki verið ósammála, er það ekki nóg?) Jón Viðar er ekki í klappliði með Hallgrími og hann geldur fyrir það. Mér fannst hæðnistónninn i skrifum Jóns Viðars ekki heldur góður. Manni finnst Ísland ansi lítið land þegar krítik og viðbrögð við krítik verða samstundis persónuleg. Maður getur ekki haft skoðun á verkum, leikhúsi, bókmenntum eða tónlist án þess persóna manns sé gerð tortryggileg, það er að segja fari skoðun manns á skjön við skoðanir annarra, annars er maður top nice.