Espergærde. Ekkert passar við daginn

Þegar ég settist niður til að skrifa dagbók dagsins varð mér í fyrsta skipti orða vant. Aldrei fyrr hefur það gerst að ég viti ekki hvað ég eigi að færa til bókar. Um margt er að skrifa en einhvern veginn finnst mér ekkert almennilega hæfa deginum. Ég gæti sagt frá endurbótum á Söbækvej, eldhúsprojektinu svokallað, en nei. Því miðar bara áfram og ekkert sem ég nenni að bæta við það.

Ég get sagt frá samtali við nágranna minn fasteignasalann sem spurði hvort ég vildi kaupa grunn á besta stað í Espergærde og byggja þar nokkur hús. Þetta samtal átti sér stað klukkan 7:45 í morgun.

Ég gæti skrifað um að á laugardaginn flýg ég til Chamonix, skíðaferð, en þar er enginn snjór.

Ég gæti skrifað um kennarann minn í barnaskólanum, sem angaði alltaf af rauðum Opal.

Líka væri hægt að fabúlera aðeins um undirbúning að útgáfu á bók eftir rúmenskan höfund sem ég ætla að reyna að gera að metsölubók. Þau skrif bíða betri dags.

Fyrir nákvæmlega einu ári var ég í flugvél á leið frá Buenos Aires til Santiago í Chile. Það væri gaman að rifja það upp. En nei, ekki í dag.

Nú vantar mig að einhver sendi mér krassandi erindi, annað hvort með tölvupósti, bréfpósti eða bara komi færandi hendi með eitt stykki athyglisvert erindi sem hæfir janúardegi.

Í dag er ekkert sem hentar dagbókinni, hér er rok og rigning. Í stað þess að skrifa hef ég ákveðið að tékka á músikinni (Philip Glass, Études: No. 5) sem Sandra sendi mér í gær. Takk Sandra.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.