Ég hafði eignlega kviðið því í gær og í nótt að fara í jóga sem byrjar klukkan 8:15 hvern föstudagsmorgun. Mér finnst það svo leiðinlegt og ég finn ekki fyrir þessari miklu vellíðan sem margir tala um við ástundan þessa forna hug- og líkamsræktarforms. Sennilega vegna þess að ég er svo mikill planki að ég geri æfingarnar ekki rétt. En í morgun var mér bjargað. Hingað átti að koma múrari klukkan 08:00 en nú klukkan 8:22 er hann ekki enn kominn og ég bíð svo ég komst ekki í jóga, jeiiii.
Síðustu daga hef ég unnið að uppgjöri ársins 2016 fyrir forlagið. Ég hef keyrt sölu ársins af þeim bókum sem eru í umferð inn í lítið prógramm sem gleypir tölur og spýtir svo út bæði statistik og royaltyuppgjörum. Þetta forrit hef ég dundað mér við að þróa síðustu ár og ég veit ekki hvernig ég gæti rekið forlag án þessa litla hugbúnaðar sem er nú svo notendafjandsamlegur að enginn getur skilið eða unnið með nema ég. Hér í Danmörku kemur bók út í mörgum mismunandi útgáfum; innbundin, kilja (oft í fleiri en einni stærð), hljóðbók bæði sem mp3 og download, e-bók og stundum sérútgáfa fyrir stórmarkaðina. Ein bók hefur því oft fjögur eða fimm líf eða sex líf. Það er því margt sem þarf að halda utanum.
Hvert ár kemur manni á óvart hvað ein bók getur selst lítið og önnur selst mikið. Vinkona mín Elena Ferrante selst í bílförmum hér í Danmörku og salan eykst ár frá ári. Nú eru næstum fjögur ár síðan fyrsta bókin í Napólíseríunni kom út hjá okkur og sú bók hefur selst sexfalt meira í ár en fyrsta árið. Þetta er gaman. En ekkert jafnast á við það þegar Harry Potter bækurnar komu út á Íslandi. Dagarnir á lagernum eru sveipaðir ævintýraljóma. Að horfa á eftir röðum fullhlaðinna sendibíla keyra út af lagerplaninu var dúndurfalleg sjón.
Í gær tæmdi ég bankareikninginn þegar ég borgaði hluta af fyrirframgreiðslunni fyrir næstu Dan Brownbók. Upphæðin var svo stór að bankinn hringdi til að spyrja hvort ég hefði í slysni bætt einu núlli við.