Chamonix. Sirkusflugið

Komin til Chamonix og fyrsti skíðadagur framundan. Hér er ekki mikill snjór svo það verður fróðlegt að sjá hvernig skíðabrekkurnar líta út.

Flugið til Geneve var hálgert sirkusflug. Ég var svo óheppinn að sitja við hlið einhvers konar kærustupars, fólks á fimmtugsaldri. Ég hafði tekið eftir þeim í biðsal flugstöðvarinnar þar sem mér fannst þau hafa óvenjumargar pjönkur með sér í flugið, eins og á þau hefði runnið gríðarlegt innkaupsæði í flughöfninni því allir voru pokarnir ættaðir úr verslunum Kastrupflugvallarins.

Ég spekúleraði svo sem ekkert í þessu fólki þarna í biðsalnum en þegar ég ætlaði að fá mér sæti í flugvélinni sá ég í fyrsta lagi að ég átti að sitja við hlið þessa innkaupsglaða fólks og í öðru lagi höfðu þau komið bæði pokum og yfirhöfnum í gangsætið  mitt. Þótt ég gerði mig líklegan til að setjast virtist maðurinn ekki ætla sér að flytja allt dótið sem lá í sætinu. Ég varð því að hnippa í manninn sem var seinn til og flutti hafurtask sitt dræmlega upp í farangurshólfin fyrir ofan sætaraðarinnar. Hann tók sér góðan tíma til að koma pokum og yfirhöfnum inn í hólfið en á gólfinu fyrir framan konuna sem sat við gluggann sá ég að þar lágu enn fleiri pokar.

Þegar hann hafði loksins fengið sér aftur sæti og ég komið mér fyrir í mínu sæti byrjaði samtal þessara tveggja einstaklinga. Maðurinn hallaði sér fram til að ná í eitthvað í einum af hinum fjölmörgu pokum sem lágu fyrir framan framan konuna. Konan var fljót að slá á hönd mannsins.
„Láttu mitt dót vera!“ sagði konan birst.
„Réttu mér bara flöskuna,“ svaraði maðurinn.
„Þú getur bara náð í flöskuna sjálfur,“ sagði hún og ýtti einum poka með fætinum.
Hann beygði sig fram, veiddi hálfa vodkaflösku upp út pokanum og blandaði sér sterka vodkablöndu í Cola Zero.
„Ég get ekki séð neitt, gleraugun mín eru svo skítug, náðu í gleraugnahulstrið mitt,“ segir konan pirruð, en með sérkennilegum vælutón. Hún leit út fyrir að vera læknaritari, með tískugleraugu og rétta hárgreiðslu.
„Æ, þú ert svo ósjálfbjarga, þú gerir líf mitt svo miklu erfiðara, þú ert bara til vandræða, bara til vandræða…“ svaraði sessunautur minn, sem var krúnurakaður, hávaxinn með velþroskaða bumbu. Honum lá ótrúlega hátt rómur.

Svo gaf hann mér óþarlega hart olnbogskot til merkis um að hann vildi standa upp. Mér brá við þetta og íhugaði að svara í sömu mynt en ákvað að halda mig á mottunni og stóð á fætur. Enn byrjaði maðurinn að róta í plastpokum í leit sinni að gleraugnahylki konunnar. Ég stóð og beið en leitin bar ekki árangur fyrr en eftir að flugþjónninn, ákaflega þolinmóður maður, tók þátt í leitinni og setti hvern pokann á fætur öðrum niður á gólf flugvélarinnar.

Við settumst aftur, ég las bók á iPadinum og sessunautur minn svolgraði í sig hvert vodkaglasið á fætur öðru á milli þess sem hann jós svívirðingum yfir konuna sem svaraði fullum hálsi til baka.
„Þú ert svo heimsk,“ endurtók hann í sífellu.
„Það eru allir heimskir í þínum augum. Nefndu einhvern sem ekki er heimskur,“ svaraði hún. „Þú er sjálfur alger liðleskja. Þú ert húðlatur. Þú getur ekki unnið af því að þú ert svo latur.“
„Þú getur ekki unnið því þú ert svo heimsk. Þótt þú hafir allan heimsins tíma geturðu ekki fundið upp á neinu öðru en að gera líf mitt að hreinu helvíti. Ég kaupi fyrir þig jakka og nota fullt af peningum og þú ert svo glöð í hálfan dag. Svo byrjar nöldrið aftur.“
„Þú ert líka svo nískur að þú tímir engu,“ svarar hún og nú er heiftin orðin svo mikil að röddin titrar.
„Þú ert ekki einu sinni glöð þótt að við séum á leið á skíði. Það er ekki einu sinni nógu gott fyrir þig. Hver borgaði þessa ferð?“ spyr hann og heldur að hann hafi fundið veikan punkt.
„Ég borgaði fyrir mig, það gerði ég fyrir mörgum mánuðum.“
„Ég borga alltaf allt, þú borgar aldrei neitt, enda ertu eins og barn. Ósjálfbjarga barn.“
„Ef þú borgar mér þessa ferð til baka skal ég fljúga beinustu leið heim þegar við lendum,“
„Heyrði þetta,“ hrópaði maðurinn upp yfir sig og vildi nú blanda hinum flugfarþegunum í deilur þeirra hjóna. Svo gaf hann mér enn eitt olnbogaskot sem hefur örugglega brotið rifbein því mér er enn illt. „Heyrðirðu þetta, konan mín vill fljúga heim. Hún er svo heimsk að hún myndi aldrei finna flug til Danmerkur.“
„Vertu nú ekki að blanda mér inn í samræður ykkar,“ segi ég og sný mér aftur að bókinni sem ég gat alls ekki einbeitt mér að.
„Hva… hvaðan ertu?“ segir maðurinn öskufúll
„Esbjerg,“ segi ég.
„Esbjerg…. þú ert ekkert frá Esbjerg, ég heyri það vel. Þú ert Íslendingur. Ég þekki marga Íslendinga. Þú ert örugglega einn af þeim sem settir Magsin du Nord á hausinn. Ég hef séð þig áður. Þú settir Ísland á hausinn og Magasin du Nord.“
Ég svaraði ekki. Hann starði á mig og ég fann hvernig áfengiseimurinn lagðist yfir mig eins og þétt þoka. Svo fékk hann aðra hugmynd.
Enn gaf maðurinn mér eitt af sínum hörðu olnbogaskotum og gaf merki um að hann vildi standa upp. Ég stóð á fætur.
„Ég þarf á klóstettið,“ segir hann.
„Spurt,“ svaraði ég eins og Númi hefur kennt mér að unglingar nú til dags svara.

Að vörmu spori kom maðurinn, nú með pappírsþurrku fyrir nefið. Hann hlammaði sér í sætið og tilkynnti konu sinni að hann hafi fengið sér kókaín í nösina. Og svo hófust miklar umræður um hvort hundar geti uppgötvað allt það kókaín sem hann hafi í brjósvasanum. Samræðurnar verða æ ruglaðri og tónninn verður enn fjandsamlegri. Hálftími fer í að ræða hvort hann sitji of þétt upp að konunni, sem ýtir honum í sífellu frá sér. Annar hálftími fer í að ræða hvort eigi að vera dregið fyrir gluggan. Konan vill hafa dregið fyrir enda er henni svo illt í augunum vegna þess hve glerið í gleraugunum hennar hafi verið skítugt. Hann vill hafa opið og ekki dregið fyrir enda hafi hann séð flugvél sem hafi spúð óvenju svörtum reyk út úr mótornum. Allt í einu kallar hann á flugþjóninn.

„Hvað get ég gert fyrir þig?“ spyr flugþjónninn kurteisi.
„Ég held að það sé hættuástand! Ég sá flugvél hérna rétt áðan sem flaug í gagnstæða átt og það var kolsvartur reykur aftur úr mótornum!“
„Þú skalt ekki hafa áhyggjur, það er oft svartur reykur aftur úr flugvélum. Þetta kallast mengun,“ hann hlær glaðlega og gengur í burtu.
Á meðan hefur frúin dregið fyrir gluggann.
„Dregðu frá!“ hrópar maðurinn og hefur nú tæmt vodkaflöskuna sína.
„Nei, mér er illt í augunum.“
„Dragðu frá, kona. Ég tel upp að 5. Einn… tveir… þrír… fjórir… Þú skildir hvað ég sagði. Ég held að allir í flugvélinni hafi skilið það sem ég sagði. Þú ert bara svo skuggalega heimsk að maður getur aldrei verið viss um að þú skiljir, jafnvel einfalda hluti.“
Konan svaraði ekki og hafði snúið baki í manninn.
„Fimm!“ um leið og hann sleppti orðinu ýtti hann gardínunni upp. En konan dró jafnharðan fyrir. Maðurinn sló gardínuna  aftur upp og konan dró fyrir. Svona gekk þetta í nokkrar mínútur eða þangað til konan hvæsti: „Viltu láta mig vera og hætta að ýta mér.“

Svona leið þessi sirkusflugferð allt þar til við lentum og þá gerðist hið undarlega. Um leið og ég hafði staðið upp til að ná í handfarangur minn lognuðust þessir tveir yndislegu ferðafélagar út af og steinsofnuðu í sætum sínum eins pokahrúgur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.