Chamonix. Að vefja sér sígarettu

Ho. Fyrsti dagur á skíðum er að baki. Sólin skein á okkur og snjórinn var fínn í brekkunum. Í nótt komu Lars og Pia, nágrannarnir okkar,  ásamt börnum og verða á skíðum með okkur þessa viku.

Ég er kominn úr skíðafötunum og búinn í baði. Músikin hljómar fyrir mig á meðan aðrir eru í baði eða hafa lagt sig. Ég hafði sett sjónaukann minn í gluggakistuna hér í stofunni. Ég hef tekið upp þann vana að hafa með mér á ferðalög litla kíkinn sem annars stendur í gluggakistunni á skrifstofunni minni á lestarstöðinni. Húsið sem við búum í hér í Chamonix stendur í námunda við lítinn bar, bjórbar sem bruggar sinn eigin bjór og selur hamborgara og nachos með. Þegar ég er hér í Chamonix fer ég oft seinnipartinn á barinn og fæ fínan bjór og lítinn nachos með, svo sit ég og narta í nachosið og sötra bjórinn á meðan ég les tölvupósta dagsins og svara þeim sem mér finnst ég þurfa að svara. Það er rökkur inni á barnum og gestirnir eru nær allir ungt útivistarfólk. Músikin er há og þjónarnir taka dansspor þegar þeir ganga fram og til baka með veitingar. Þeir eru glaðir. Fyrir utan barinn er lítil kaffistétt. Þar er gott að sitja á sólbjörtum degi.

Út um gluggann á húsinu hér í Chamonix blasir kaffistéttin við. Ég hafði tekið eftir ungri stúlku á meðan ég klæddi mig sem sat ein við borð og ég beindi kíkinum að henni. Á borðinu fyrir framan hana stóð lítið bjórglas. Hún vafði sér sígarettu. Það var eins og hún nyti þess að nostra við sígarettuna. Hún gaf sér góðan tíma og dunaði sér við að gera sígarettuna þétta og fína. Hún ýtti ítrekað svörtu hárinu frá augunum og það vottaði fyrir brosi á andliti hennar. Að loknu verki virti hún sígarettuna fyrir sér og virtist harla ánægð með árangurinn því hún setti sígarettuna milli varanna, tók fram bleikan kveikjara og setti eld í. Hún dró að sér fyrsta smókinn með augljósri nautn og blés reyknum frá sér með lokuð augun. Svo svipaðist hún í kringum sig en  ekkert fangaði athygli hennar nema bjórinn á borðinu, hún fékk sér sopa og fiktaði í öskubakkanum á borðinu. Hún hallaði sér til baka. Ég stillti fókusinn svo ég gæti séð stúkuna betur. Allt í einu sá ég hvernig andlitið lifnaði við af undrun. Hún hafði lyft öskubakkanum upp og undir honum kom í ljós peningaseðill, 20 evrur, ég sá ekki betur. Hún veiddi seðlinn undan öskubakkanum, horfði flóttalega í kringum sig og stakk svo seðlinum á sig. Hún hallaði sér aftur og tók annan smók eins og ekkert hafði í skorist.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.