Í gær náði ég þeim áfanga að skrifa 365. færsluna á Kaktusinn. Sem jafngildir einni færslu á dag í 365 daga. Að skrifa á Kaktusinn er góð skemmtun, og um leið góð æfing í að halda íslenskunni við.
Nú eru tímamót hjá Kaktusnum. Ég veit ekki alveg í hvaða átt ég á að fara með Kaktusdagbókina. Enginn bylting hér en það sem ég hef þó ákveðið:
Ein færsla á dag, hið minnsta. Ég skal skrifa um atburði daganna. Aldrei skal ég fjalla um íslenska pólitík nema ég komi með ábendingu um hvað má betur fara og hvaða leiðir eru færar til bóta (sem sagt að mínu mati). Allt tal um íslenska pólitík sem snýst um að benda á böl og aftur böl og lélegt fólk, lélega persónleika, heimska og ófríða án þess að benda á betri leiðir fer svo hömlulaust í taugarnar á mér… Ég gæti gargað.
Það getur verið að ég skrifi meira um íslenskar bókmenntir en ég hef gert. Það liggur beint við þar sem bókmenntir er eitt af helstu áhugamálum mínum. Ég gæti dottið niður í þá gryfju að tala um íslenska bókaútgáfu og íslenska bókmenntagagnrýni. Bókabransinn á Íslandi lifir á tímum þar sem skrif um bókmenntir og bókaútgáfu er í sögulegu lágmark, bæði hvað varðar magn og gæði. Ef opinber umræða um bókmenntir á ekki að lognast út af er þörf á að hækka standardinn, kannski það sé verkefni fyrir félag íslenskra bókaútgefenda sem á næsta aðalfundi velur sér nýjan formann. Það væri ef til vill hugmynd að bjóða hingað á Kakstusinn gestabloggara sem skrifa um bókmenntir. Hugarás er dæmi um vel heppnað bókmenntavefrit. Eða ætti ég að taka viðtöl? Ha? Það er hugmynd. Spurt og svarað. Hehe. Nei, ætli það.
Hér snjóar.