Í gærkvöldi las ég samtal John Irvings og ameríkanska nýhöfundarins, Nathan Hill, sem hefur vakið mikla eftirtekt fyrir bók sína THE NIX. Bókin kom út á síðasta ári. Samtal þeirra var svo sem ekkert sérstakt en mér þótti gaman að lesa um baráttu Nathans við að skrifa sínu fyrstu bók. Það tók hann 12 ár. Í byrjun skrifferilsins gekk bara ekkert, allt sem hann sendi til útgefenda fékk hann til baka í hausinn. En bókin THE NIX hélt áfram að malla í hausnum á honum. Hann var farinn að skammast sín fyrir að sitja heima og skrifa og fá ekkert útgefið. Þegar fólk spurði hvað hann ynni við, svaraði hann að hann sæti heima og skrifaði, en bætti alltaf við að hann þýddi bækur og skrifaði greinar fyrir tímarit.
Eftir sjö ára strit við skrifborðið fékk hann sér vinnu utan heimilisins, hann byrjaði að kenna í barnaskóla en skrifaði í frístundum. (Eftir að hafa skrifað THE NIX í 7 ár kom síðasta setning bókarinnar upp í huga hans, en þá átti hann enn eftir að vinna í 5 ár að bókinni). “Ég ákvað að hætta að spekúlera í hvað skrifin gengu illa hjá mér, ég hætti að keppa við alls konar fólk sem fékk alls konar bækur útgefnar á meðan ég fékk bara ekkert útgefið en skrifaði og skrifaði. Allar þær áhyggjur og öll sú niðurlæging sem var farin að krauma inni í mér gufaði upp. Ég einbeitti mér að þvi að kenna og mitt stóra frístundagaman var að skrifa og það voru skrifin sem veittu mér svo mikla gleði.
Eitt af því sem ég fór að skilja var að ég gat ekki bara litið á skáldsöguna sem ég skrifaði sem eitthvað sem bara varð að gera. Mig langaði að verða rithöfundur en ég gat ekki lagt allt í sölurnar fyrir það, það var svo heimskulegt. Þess í stað byrjaði ég að hugsa um bókaskrif á sama hátt og ég hugsa um garðyrkjustörf, að hugsa um garðinn sinn. Enginn passar upp á garðinn sinn til að verða frægur. Enginn fer að hafa brjálaðar áhyggjur út af því að garðurinn er frekar óræktarlegur og það eru margir sem geta séð það. Maður ræktar garðinn sinn af því manni finnst það gaman, eða notalegt. Á sama hátt ætti ég að hugsa um bókarskrif, að ég skrifa bók því ég verð glaður af því að skrifa,” þetta segir Nathan Hill.
Hér í Chamonix er hætt að snjóa.