Chamonix. Dúkuð borð mitt inni í barrskógi.

Í dag hitti ég mann sem kynnti sig sem mr. Marley. Og það var skíðadagur.

Skíðbrekkurnar sem ég valdi í dag liggja inn á milli hárra barrtrjáa þar sem breiðar brautir hafa verið ruddar inni í skóginum fyrir skíðafólkið. Í stólalyftunum á leið upp bekkurnar svífur maður fyrir ofan skóginn og sér langt, bæði niður í bæinn og upp í Alpafjallgarðinn. Ég hafði tekið eftir að inni í skóginum eru margir skógarkofar, litlir og stórir kofar byggðir úr bjölkum. Flestir kofanna virðast yfirgefnir og í nokkurri niðurníðslu; tréveggir fúnir, gluggar brotnir og þökin löskuð. Einn skógarkofi vakti þó mesta athygli mína þegar ég sat í skíðastól vaggandi yfir skóginum. Kofinn lá langt frá skíðabrekkunum, hátt uppi í fjalli, mitt inni í barrskógi og fjarri öllum mannaferðum. Samt var eins og þarna hátt uppi í hlíðinni væru seldar veitingar því ég sá ekki betur en gulum sólhlífum hefði verið stillt upp í kringum kofann eins og oft tíðkast þar sem veitingasala fer fram. Enginn vegur virtist liggja að kofanum.

Ég hafði velt þessum fjallakofa nokkuð fyrir þegar ég ákvað að kveðja skíðafélaga mína um stund til að ganga inn í skóginn og kanna hvað færi fram við húsið með gulu sólhlífunum. Ég fór úr skíðaskónum og reimaði á mig gönguskóna.

Ég hafði ekki gengið langt upp fjallshlíðina, í gegnum dimman barrskóginn, þegar ég fór að óttast að hafa misst áttir. Ég var ekki viss um að ég gæti ratað að húsinu, skógurinn var bæði þéttur og dimmur og enginn sjáanlegur stígur. Ég lét ekki hugfallast, gekk áfram, sveittur og heitur og naut kyrrðarinnar. Af og til nam ég staðar, kastaði mæðinni, hlustaði eftir hljóðum og reyndi að átta mig á hvar húsið gæti legið. Ég sá engin merki en stikaði áfram upp brattann. Skyndilega, án nokkurs fyrirvara, án merkingar eða vott um mannaferðir, kom ég inn í nokkuð stórt rjóður. Lítill trékofi blasti við og í kringum hann var raðað að minnsta kosti 30 grófum tréborðum, öll undir gulri sólhíf  með svartri merkingu, HAWAIIAN TROPIC. Borðin voru dúkuð með rauðköflóttum dúkum og bréfaservíettur í svörtum servíettuhaldara stóðu á hverju borði. Umhverfis borðin var raðað fjórum stólum. Ég var aldeilis forviða, þarna í 1900 m hæð mitt inni í skógi var veitingasala þar sem pláss var fyrir meira en 100 manns í sæti. Ég virti þessa stórkostlegu sýn fyrir mér. Þögnin var alger og enginn var sjáanlegur. Mér fannst tilvalið að banka uppá og spyrja hvort maður gæti keypt eitt bjórglas; ég hafði unnið fyrir því, fannst mér, eftir þessa löngu og ströngu göngu.

Ég gekk í átt að húsinu og sá mér til enn meiri furðu að fyrir utan kofadyrnar stóð maður með sjónauka fyrir augunum og horfði einbeittur upp til fjallstoppana. Hann virtist ekki hafa orðið mín var því hann starði lengi í gegnum kíkinn án þess að hreyfa sig eða gefa til kynna að hann vissi af ferðum mínum. Ég gekk til mannsins og nam staðar við hiðina á honum. Hann haggaðist ekki. Hélt bara áfram að góna í gegnum sjónaukann. Ég leit upp og reyndi að sjá hvað héldi áhuga mannsins svo föngnum.
„Á hvað ertu að horfa?“ spurði ég loks.
„Ég er að horfa á fuglana,“ svaraði hann. Ekkert virtist hagga þessum veitingamanni. Ég leit upp en sá enga fugla, sama hvað ég rýndi.
Eftir nokkra bið spurði ég. „Er nokkuð hægt að kaupa bjór hjá þér?“
„Nei, ég sel ekki bjór. En þú getur keypt, Fanta, Pepsi og Tonic Water.“
„Já, fínt. Eina Pepsi, takk,“ sagði ég. Það var sterk, sæt lykt í loftinu og ég gat ekki alveg gert upp við mig hvort þetta var lykt af barri eða hassi.
„Matseðill dagsins er eggjakaka,“ sagði maðurinn og horfði enn í gegnum kíkinn upp fjallshlíðina.
„Nei, takk ég ætlaði bara að fá eitthvað að drekka, ég hef svitnað svo mikið.“
Hann tók kíkinn frá augunum og sneri sér að mér. Hann var sláandi líkur Bob Marley; sömu rastaflétturnar, sama hökuskeggið og brúnu augun. Hann rétti mér höndina um leið og hann kynnti sig.
„Marley.“
Ég gat ekki annað en brosað.
„Marley?“
„Já, Marley. Hvað heitir þú?“
„Snæbjörn.“
„Heyrðu. Ég bíð ekki upp á annað en eggjaköku og á bara 3 eggjakökur eftir.“
„Nei, takk… Býrðu hérna?“
„Fáðu þér sæti, félagi.“ Hann benti í átt til borðanna. „Ég bý niður í þorpi en geng hingað upp á hverjum morgni með bakpoka. Það tekur mig klukkutíma að komast hingað upp. Í bakpokanum flyt ég þær veitingar sem ég sel. Alltaf 12 egg, lauk, ost, gosdrykki og vatn. Úr 12 eggjum get ég búið til 3 eggjakökur. Ef mér tekst ekki að selja eggjakökurnar borða ég þær sjálfur. Ef ég sel eggjakökurnar borða ég eitthvað annað þegar ég kem aftur niður í þorp á kvöldin.“ Hann snerist á hæli og gekk inn í kofann og kom aftur að vörmu spori með Pepsidós og glas.
Ég fékk mér sæti.
Maðurinn lagði glasið fyrir framan mig og hellti Pepsi í glasið eins og vanur þjónn.
„Má ég nokkuð taka mynd af þér fyrir framan húsið. Þetta er svo sérstakt hérna. Veitingahús mitt inni í skóginum.“
Hann brosti.
„Fyrirgefðu kammerat, en ég vil ekki að fólk taki myndir. Hvorki af mér né af veitingasölunni.“ Hann glotti með sjálfum sér og það var eins og hann leitaði að orðunum. „Ég er svo líkur Bob Marley, sjáðu, að fólk gæti fundið upp á því koma af stað sögusögnum um að mr. Marley sé enn á lífi. Svo er það hitt að ég vil ekki auglýsa restaurantinn minn. Hingað kemur næstum aldrei neinn og þannig vil ég hafa það.“

Marley settist á móti mér og sönglaði einhverja lagleysu og ég drakk Pepsiið mitt.

Því miður get ég ekki sýnt myndir af þessum stórkostlega stað, og ekki af mr. Marley, en ef mér tekst að koma aftur til Chamonix, ætla ég að heimsækja Marey og draga mitt fólk með upp brekkurnar. Ef við erum fjögur gætum skipt á milli okkar þremur eggjakökum. Það væri gaman. Það versta er að Marley færi svangur heim þann daginn.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.