Genf. Gamaldags stúlka

Við erum á heimleið. Flugvöllurinn í Genf liggur í um það bil 90 km aksturfjarlægð frá Chamonix. Í nótt hefur snjóað. Hlið himins hafa opnast og hellt yfir okkur þvílíku mangi af snjó að það var erfitt fyrir Nissan bílinn sem við leigðum að keyra í gegnum skaflana. Og það snjóaði í myrkrinu þegar við keyrðum af stað klukkan sjö í morgun. Og það var kalt. Það var frost.

Á leiðinni þurfti ég að bæta diesel á bílinn. Ég stóð í snjóstormi við dælurnar og beið þess að tankurinn fylltist. Ég gekk síðan til að greiða inn í lítinn skúr þar sem ung stúlka með gamaldags hárgreiðslu og gamaldags gleraugu tók á móti mér með breiðu brosi. Mér var ískalt og það lak úr nefninu á mér eftir að hafa staðið úti í frosti og roki og þess vegna saug ég án afláts upp í nefið. Stúlkan tók við greiðslukortinu mínu með löngum afar fínlegum fingrum. Veikur ilmur af lavander barst frá henni og sveif í loftinu á annars olíumettuðum skúr. Hún horfði innilega á mig og sagði eitthvað á frönsku sem ég skildi ekki. Sennilega hefur hún sagt eitthvað um sultardropana sem héngu úr nefinu. Áður en ég fékk svarað henni stakk hún sinni fíngerðu hönd niður í Kleenex öskju, hallaði sér fram og með ósköp varfærnislegri, blíðlegri hreyfingu og þurrkaði mér um nefið.

Sumir hefðu eflaust reiðst stúkunni fyrir þessa  snertingu, að snerta ókunnugan mann og algerlega að óvöru. En ég gat ekki annað en fundið til væntumþykju til þessara hallærislegu stúlku sem þurrkaði mér um nefið með slíkri blíðu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.