Espergærde. Skáldkona í Austurstræti

Ég var rétt kominn inn úr dyrunum á skrifstofunni þegar ég byrjaði að taka til. Finna hluti sem ég vildi henda, setja bækur upp í hillur, safna saman pappírum og þurrka af borðum. Ég ákvað meira að segja að skúra.

Þetta gerði ég nánast hugsunarlaust. Það var ekki fyrr en ég var búinn að koma skikki á skrifstofuna að ég fór að velta fyrir mér hvers vegna ég hefði rokið í að taka til. Gera allt skínandi. Fæstir voru komnir á fætur og enn kolniðamyrkur úti. Þetta gerist svo sem ekki á hverjum morgni. Hvað var ég að hugsa?

Fundurinn á morgun kom fyrstur í hugann. Ég á von á gesti, eða gestum, sem hafa boðað komu sína hingað klukkan 11:00 til að kynna mér verkefni sem þau vilja fá mig með í. Sennilega vil ég sýna mínar bestu hliðar, skínandi skrifstofu, án þess að ég hafi meðvitað hugsað út í það.

Annars er það að frétta að ég fékk í gær síðbúin viðbrögð við verðlaunagetrauninni frá því í fyrradag. Eiginlega kom ekkert svar í bréfinu, þótt bréfritari hefði í upphafi tölvupósts síns boðað greindarlegt svar við spurningu minni. Í tölvupóstinum segir meðal annars: „Ég geri ekki ráð fyrir að aðdáandi Mávsins sem þú vitnar í, rithöfundurinn, sé íslensk kona, jú kona, jú rithöfundur, en ekki íslensk. Ég var á göngu í gær niður í Austurstræti og sá þá íslenska skáldkonu sem ég kannast við. Hún kannaðist ekki við mig, hún horfði bara í gegnum mig og gekk hratt sína leið. Þarna mitt í Austurstræti hugsaði ég, ‘já ég ætlaði að svara verðlaunagetrauninni hans Snæja’. Ég á ekki við að ég hafi numið staðar í Austurstrætinu til að hugsa. Ég gekk líka áfram eins og skáldkonan, bara ekki í eins beinni línu og ekki með sömu skrefalengd.

Mér datt auðvitað ekki í hug að skáldkonan í Austurstrætinu, (ég nefni engin nöfn til að stríða þér aðeins) hefði skrifað svo fallega um Mávinn, ég held að hún skrifi bara fallega um eigin verk, en samt minnti hún mig á verðlaunagetraunina. Það fannst mér skrýtið.

Um leið og ég gekk framhjá Eymundsson ákvað ég að fara inn í bókabúðina og kaupa mér Mávinn. Ég hafði aldrei lesið leikritið og heldur ekki séð það á fjölum leikhúss. Ég er heldur ekki mikill leikhúsmaður, oftast leiðist mér í leikhúsi. Þú hafðir réttilega bent á að leikritið fengist ekki á íslensku en mér var svo sem sama um það. Bókina fékk á ensku og þegar ég kom heim (ég er einn heima um þessar mundir) sauð ég vatn setti á hitapoka, skreið undir sæng (með hitapokann undir sænginni) og las Mávinn. Leikritið um þránna eftir eigin lífi. Var það ekki það sem hún sagði skáldkonan í getrauninni … En Snæi minn, komdu endilega með fleiri getraunir, ég lofa að taka þátt í þeim, svara ef ég get. Að minnst kosti sendi ég þér greindarlegar vangaveltur um möguleg svör.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.