Klukkan er þegar orðin ellefu og ég er rétt sestur niður fyrir framan tölvuna hér á lestarstöðinni í Espergærde, skrifstofunni minni. Ég er enn með blautt hár eftir morgunbaðið, ég er einungis búinn að hella í mig einn kaffibolla og síminn hringir látlaust. Hér er sem sagt allt farið úr böndunum. Ég hefði átt að vera hér fyrir um það bil fjórum klukkutímum. En ég svaf yfir mig, vaknaði ekki fyrr en klukkan 6:52 og þar með var allt mitt prógramm farið handaskolum.
Í gær fékk ég heimsókn frá tveimur afar viðkunnarlegum manneskjum sem vildu fá mig með sér í smáverkefni. Þennan fund hafði ég undirbúið síðustu daga. Nú hugsa ég um tilboð þeirra um leið og ég fæ fleiri upplýsingar. Annan aðilan hafði ég ekki hitt fyrr og ég var hæstánægður með þann mann. Það fyrsta sem hann sagði: „Þú heitir Snæbjörn (þetta sagði hann á útlendri tungu því hann er útlendingur). Þýðir nafnið eitthvað?“ Ég fann að hann var einlæglega áhugasamur um svarið við þessari spurningu á sinn lítilláta hátt.
Í ljós kom að hann, (52 ára) er Evrópumeistari í badminton fyrir eldri en 50 ára, hann var aðdáandi Gianrico Carofiglio, hann er sérfræðingur um evrópskan fótbolta og svo vissi hann svo margt og mikið að það var sönn ánægja að hitta þennan mann. Sjaldan að maður rekst á manneskjur sem maður nær að tengjast 10 sekúndum.