Laugardaginn 5. júlí 1980 (daginn sem Raquel Welch giftist kvikmyndaframleiðandanum André Weinfeld) gengu þeir Björn Borg og John McEnroe inn á aðalleikvanginn í Wimbledon. Einn eftirminnislegasti tennisleikur sögunnar var í vændum.
Fyrir einvígið hafði Björn Borg farið í gegnum sitt nánast trúarlega ritúal. Hann hafði það fyrir sið að búa á Holiday Inn hótelinu í Hampstead í noðurhluta Lundúna. Sjálfur vettvangur tenniskeppninnar, Wimbledon, liggur þó í suðvesturhluta borgarinnar. Á hverju kvöldi stillti Björn hitastigið á verustað sínum niður í nákvæmlega 12 gráður. Hann svaf allsber í rúminu í tíu tíma, án sængur. Púlsinn fór aldrei yfir 50 slög á mínútu þegar hann vaknaði. Hann gætti þess vandlega að líkamsþyngdin væri nákvæmlega 73 kíló – minnsta frávik þar frá taldi hann að hefði áhrif á jafnvægi og viðbragðsflýti.
McEnroe hafði aðra nálgun og sýn á undirbúning fyrir mikilvægan leik. Í hádegi keppnisdagsins hafði hann sest inn á McDonalds veitingastað, sem lá spölkorn frá tennisvellinum, borðað hamborgara og drukkið kók. Síðan gekk hann í rólegheitum til aðalleikvangsins og hlustaði á tónlist eftir Joan Jett & The Blackhearts sem hann hafði hlaðið inn á walkmaninn sinn.
Klukkan korter í tvö gengu keppendurnir tveir inn á völlinn. Hvert sæti í áhorfendastúkunni var setið. Dagurinn var óvenju mollulegur. Þetta sumar hafði hinn enski höfuðstaður legið undir hitabylgju og garðeigendur borgarinnar höfðu ekki haft undan að vökva litlu garðblettina sína. Sala á kampavínsbarnum inni á aðalleikvanginum var lífleg. Flestir létu sér nægja að fá freyðivín í glas en nokkrir völdu að kaupa aukalega litla skál með jarðarberjum.
Báðir keppendur höfðu sett upp ennisband sem hélt síðu hárinu í skefjum og hindraði svitadropa að renna niður í augun; McEnroe skrýddist rauðu hárbandi á krulluðu hárinu en Björn Borg hafði sitt klassíska hvíta hárband með svörtum röndum. Áhorfendur voru flestir í liði með Borg. Sumir púuðu meira að segja að McEnroe sem hafði skapað sér óvinsældir eftir óvenju hatrammar deilur við dómarann í undanúrslitum keppninnar. Þeir voru ólíkir menn Borg og McEnroe.
Borg gekk ákveðnum skrefum til sætis, hneigði sig kurteislega fyrir áhorfendum og dómara með djúpri höfuðbeygingu. Ekkert í svip hans sýndi sálarástand hans, allt virtist útreiknað. McEnroe rölti hins vegar kæruleysislega til sætis, klóraði sér í hausnum á meðan hann sneri höfðinu endurtekið út til hliðanna til að losa um stífa hálsvöðva. Síðan hlammaði hann sér niður í stólinn sem honum var ætlaður, henti tennisspaðnum niður á völlinn og teygði makindalega úr sér eins og hann lægi í sólstól á Miami Beach.
Björn Borg settist hins vegar varlega á stólinn sinn eins og konsertpíanisti sem reynir að finna hina hárréttu stöðu fyrir hnén. Því næst lagði hann tennisspaðana sína varlega á jörðina. Tók annan þeirra úr upp út tennistöskunni, stóð á fætur, gekk fumlaust út til endalínunnar og gerði sig kláran til að taka á móti vinstrihandar uppgjöf McEnroe.
Nú spyrja sjálfsagt margir sig hver hafi unnið leikinn. Það gerði Björn Borg.