Það er orðið nokkuð langt síðan ég lagði fram verðlaunagetraun hér á Kaktusnum. Ég lofaði þeim sem hefði rétt svar við spurningu minni góðum verðlaunum, m.a. 12 bjórum á bar að eigin vali. Ég tek eftir að þeir sem svara spurningu getraunarinnar minnast allir á hvað þeir væru til í bjórbarferð.
Í dag kom síðbúið svar frá einum af dáðustu rithöfundum þjóðarinnar. Hann hafði ekki, ekki frekar en aðrir sem hafa spreytt sig á getrauninni, rétt svar. Oddný Eir er ekki sú sem ég vitna í en ekki kæmi mér það mjög á óvart að hún væri gífurlegur aðdáandi Mávsins hans Tsjekhovs. Svarið við minni getraun er nafn á útlenskri skáldkonu.
Í bréfi höfundarins (þar sem hann getur sér til um að Oddný Eir sé verðlaunasvarið) biður hann mig að “minnast sín einhvers staðar í bjórunum tólf …”
Þegar ég las þessa setningu af símanum mínum, gangandi (lh. nt.) niður Søbækvej, hugsaði ég með mér: Ef hann nú bara vissi hvað hann hefur oft verið í huga mér.
Í mörg ár, og ég ýki ekki, hlustaði ég á kassettu með upplestri þessa höfundar á einni af sögum hans. Í þá tíð fékkst hljóðbókin hans á 8 kassettum. Ég átti gamlan amerískan bíl. Dodge Aries, sem þó var framleiddur í Mexikó árið 1986. Þessi bíl var eins og draumur. Að keyra Dodgebílinn var eins og að svífa, eða fljúga, lágt yfir götum Reykjavíkurborgar á löglegum hraða. Og ekki urðu ökuferðirnar verri af að hafa sögulestur þessa fína höfundar látlaust í eyrunum. „Hún var í rauðri peysu … hún var í blárri peysu…“ Ég hafði svo gaman af lestrinum að mér var nákvæmlega sama hvar í bókina ég drap niður. Ég tók bara af handahófi eina af kassettunum átta og setti í tækið í bílnum. Svo hófst lesturinn, mitt inni í bókinni, í blálok sögunnar eða í upphafi. Mér var nákvæmlega sama hvar í sögunni ég var, ég naut þess svo innilega að hlusta á lesturinn, þennan fína texta, lesinn á jafn þokkafullan hátt og þessum höfundi er einum lagið.
Ég ætlaði eiginlega að skrifa um allt annað í dag. En það verður að bíða. Klukkan er orðin margt, meira en hádegi, allt hefur tafið mig í dag. Sus liggur heima í flensu, Daf er heima með hálsbólgu. Vatnsdæla í kjallaranum, sem á að dæla vatni af gaskerfi, virkaði ekki svo 3 cm djúpt vatn lá yfir gólfinu í þvottahúsinu í morgun. Og svo allir þessir iðnaðarmenn sem þvælast í húsinu mínu alla daga.
Ég kvaddi Jón Karl í morgun með söknuði. Hann hélt áfram sigurför sinni og skildi mig eftir hér. Við höfum verið saman síðan á föstudag og ef við ættum að mæla öll þau orð sem fallið hafa á sama hátt og regn, mundi ég giska á 95 mm á sólarhring. Ef ég er gangandi aukaspyrna þá er Jón Karl er gangandi kenning. Hann hefur alltaf góðar kenningar á takteinum og fátt er jafngaman og að hlusta á hann kynna hvað liggur til grundvallar hinni spánnýju kenningu (hjá Jóni Karli fæðast fleiri kenningar á mínútu en íslensk börn á heilu ári.) Það hefur verið hreint dekur að spjalla við Jón Karl, hlusta á kenningarnar hans, hugmyndir, sögur, vangaveltur, uppgötvanir og ekki síður að borða grillaðar pulsur með honum, rúgbrauð með síld, kex með bláosti, drekka bjór og vín. Í mínum huga var þetta dekurhelgi.