Espergærde. Að ganga glaður til verks

Hó! Nú er ég aldeilis á leið í fínt boð í kvöld. Bæði forseti Íslands og Margrét Þórhildur Danadrotting verða meðal gesta. Allt er svo fínt að sjálfur Lars, nágranni minn, kom yfir til mín í gærkvöldi með safn sitt af bindum. Hann á mörg bindi, nágranni minn, og hann var góður að lána mér eitt (mér skilst að ég verði að bera bindi á þessari heldrimannasamkomu) og hnýta bindishnút fyrir mig. Ég er enn svo mikill álfur að ég kann ekki að setja bindi rétt á hálsinn á mér.

Á leiðinni hingað á skrifstofuna (ég gekk að þessu sinni, ég gat ekki hjólað þar sem afturdekkið á hjólinu mínu er sprungið) minnti ég sjálfan mig á að finna spariskóna mína. Í höll framkvæmdanna er ekkert á sínum stað, allt er á hvolfi, og ég hef ekki hugmynd um hvar ég hef sett fínu Paul Smith-skóna mína. Sennilega þarf að bursta þá. Gera þá skínandi… spegilgljáandi.

Ég þekki ekki forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson. En Jón Karl sagði mér aðeins frá honum (þeir þekkjast) og bar honum aldeilis vel söguna. „Hann er einn af þeim sem alltaf gengur glaður til verks.“ Það fannst mér góð meðmæli.

Ég veit ekki hvernig þessi veisla fer fram, hvort ég fái yfirleitt að tala við Guðna eða Margréti Þórhildi. Ef ég lendi á spjalli við þau verð ég að muna að ég má ekki stríða. Ég má hvorki stríða Guðna né drottningunni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.