Hó! Það er komið hádegi og ég er rétt núna að byrja að færa inn í Kaktusdagbókina. Um leið og ég hef skrifin sendi ég fyrirfram afsökunarbeiðni til sjálfs mín og Kaktusins fyrir að vera gersamlega laus við allt sem heitir fjör og orka. Ég er veikur, influenza, eins og þetta ástand heitir á alþjólegu læknamáli, og því er allur safi úr mér. Ég er undinn eins og gömul daðla.
Samt sit ég hér á skrifstofu, aðstæður leyfa ekki annað, og reyni að halda í við þær kröfur sem starfið gerir til mín um þessar mundir. Ég skelf og nötra af hrolli, hósta og styn. Meiri aumingjagangurinn.
Annars ætlaði ég að segja að ég var í konunglegri veislu í fyrradag. Það var ný reynsla. Konunglega hátíðlegt. Danadrotting, prinsar og prinsessur og forsetinn okkar og prinsessan hans. Við athöfnina flutti Guðni Th. Jóhannesson ansi skemmtilega ræðu. Hann er geðugur maður, forsetinn okkar, og laus við stæla. Hann er ekki fullur af sjálfum sér þessi glaðlegi maður. Svo flutti skáldið góðkunna Einar Már Guðmundsson ræðu. Hann var í föruneyti forseta og var svo heppinn að fá að búa í drottningarhöllinni i Amelienborg. Það er flott. Ég held að það sé sameiginlegur skilningur utanríkisþjónustunnar að Einar Már sé þekktasti íslenski höfundurinn í Danmörku. Ræðan var á köflum ágæt, en of löng. Ég held að hann hafi tapað salnum, skáldið, þegar hann fór að útlista efni síðustu bókar sinnar um Hundadagakonunginn. Efnið átti ekki alveg heima á þessari hátíðlegu samkomu. Einar vildi sennilega bara vekja áhuga viðstaddara á bókinni.
Í veislunni hitti ég ágætt fólk sem ég þekki, bæði frá Danmörku og Íslandi. Þarna var Örnólfur Thorsson (glaður), þarna var Auður Hauksdóttir (glöð), Einar Má Guðmundsson (náði ekki sambandi), Helga Stefánsdóttir (glöð) og nýi maðurinn hennar Guðmundur útgerðarmaður, sem ég hef ekki hitt fyrr. (Kátur) Hann benti mér á að Iðunnarhúsið á Bræðraborgarstíg væri til sölu, hann er eigandi og notaði það ekki lengur og vildi gjarnan láta aðra njóta þess (svona orðaði hann þetta). Svo hitti ég Dag Kára (glaður). Við eigum í viðskiptum ég og Dagur Kári. Eldgömlum viðskiptum.
Árið 1996, held ég að það hafi verið, hitti ég Dag Kára á flugvellinum í Keflavík. Hann var á leið til Kaupmannahafnar í nám, en hvert ég var að fara man ég ekki. Í samtali okkar kom í ljós að Dagur var hálfauralaus og áhyggjurfullur yfir því. Ég var hins vegar með fulla vasa fjár. Því sagði ég við hann: „Dagur. Nú gerum við samning. Ég borga þér fyrirfram fyrir skáldsögu sem þú átt að skila áður en þú verður 32 ára. Þá ertu á toppnum.“ Þennan samning handsöluðum við og ég skrifaði ávísun sem hann gat skipt í danskar krónur í Landsbankanum á flugvellinum.
Árin liðu og Dagur íhugaði hvernig hann gæti heiðrað sinn hluta samningsins. 32 ára afmælisdagurinn rann upp og engin skáldsaga var komin fram úr jakkaermi kvikmyndagerðarmannsins. Hann hafði samband og sagði að hann var miður sín yfir þessu en hann væri ekki búinn með söguna. Við urðu ásáttir um að við skyldum bíða enn um sinn. Skáldsagan mundi fæðast.
Svo hittumst við í fyrradag, í hinu konunglegu boði.
„Hæ, Dagur Kári! Hvernig hefur skáldið það?“
Ég sá á Degi að þetta var ekki alveg það sem hann átti von á.
„Skáldið… Ja, ég hef það fínt.“
„Hvenær eigum við að hittast yfir handritinu?“
Ég gat ekki staðist að stríða honum aðeins.
„Ja, ég var að hugsa um árið 2036. Þá eru fjörutíu ár liðin frá undirritun samnings.“
„Það líst mér vel á,“ sagði ég og reiknaði í huganum hve gamall ég yrði og velti því líka fyrir mér hvort ég væri enn á lífi eftir 19 ár.
