Espergærde. Listi yfir sögulegar kápur

Ég las einu sinni bloggsíðu þar sem meginviðfangsefni höfundar var eigin slappleiki, hor, hósti, magakveisur og almennt um það hvað hann var aumur, ungur maðurinn. Það fannst mér leiðinlegt að lesa. Ég er enn veikur, grrrrr, en ég hef ekki hugsað mér að fjalla um það í smáatriðum. Kæra dagbók, ég vil ekki vera leiðinlegur.

Þess í stað vil ég fara alveg nýja leið. Ég fjalla um bókakápur.

Ég er sjálfur verðlaunaður kápuhönnuður, yo! (Nú hljóma ég eins og Gerður Kristný, nema hún mundi sennileg ekki setja „yo“ á eftir setningunni). Sem sjálfstæður Bjarts-maður og óháður öðrum tók ég mig til og hannaði sjálfur flestar kápur forlagsins á fyrstu árum útgáfunnar. Árangurinn var misjafn, sumt var í lagi og annað frekar glatað. Það fyndna er að ég, amatörinn, fékk einu sinni stór verðlaun fyrir kápugerð, gífurlega peningafúlgu og ferð til Frankfurt. Mér fannst það satt að segja óverðskulduð verðlaun. Ég er ekki með uppgerðar lítillæti. Ég hrúgaði upp 10 kápum  á tveimur dögum á meðan alvöru hönnuðir nostra við kápur sínar, oft dögum saman.

Ástæðan fyrir því að ég rifja upp kápuferil minn nú er að ég var í gær spurður af ungum, íslenskum hönnuði (hann hélt að ég væri afkastamikill kápuhönnuður) hverjar uppáhaldskápurnar mínar væru (íslenskar, hann er Íslendingur). Hann var að vinna eitthvert verkefni. Ég svaraði manninum að sjálfsögðu góðfúslega.

Kápurnar sem ég valdi voru þrjár. Númer eitt og tvö vegna þess að ég fékk svo hlýjar tilfinningar til bókanna, sérstaklega vegna kápuskreytinganna.

min-kata-angist1. Mín káta angist eftir Guðmund Andra Thorsson. Bókin fannst mér alveg ágæt á þeim tíma sem ég las hana en kápan fannst mér algerlega frábær. Mér fannst kápan ná titilinum svo vel með teikningunni af manninum og sólinni. Og litaáferðin var fullkomin. Ef ég man rétt er þetta höfundarverk Ingibjargar Eyþórsdóttur, sem ég þekki ekki.

kaldaljos

2. Kaldaljós, Vigdís Grímsdóttir. Mér fannst bókin góð þegar ég las hana, kannski ívið löng því mér var farið að leiðast undir lok sögunnar. En kápan heillaði mig, litirnir og róin. Ég held ekki að kápan hafi verið í sérstöku samræmi við innihald bókarinnar. En það gæti vel verið að mér sljátlist. Ég man ekki lengur um hvað bókin var. Að vísu finnst mér leturnotkun (sem var sennilega modern þegar bókin kom út) ekki sérlega góð en hinar hlýju tilfinningar vega upp á móti því. Ekki veit ég hver hönnuður er, minnir að hann heiti Filip.

elskudraumamin_72-13. Elsku drauma mín, Vigdís Grímsdóttir.  Það er alger tilviljun að Vigdís á tvær bækur á þessum þriggja bóka lista.  Elsku drauma mín er dæmi um sérstaklega vel heppnaða endurnýtingu á annarri hugmynd. Fínir litir og flott myndskreyting. Jón Ásgeir á þessa kápu. Það er flínkur og duglegur kápuhönnuður.

Annars ætti ég að bæta við kápu eftir Ragnar Helga Ólafsson. Ég held, án þess að vita það, að Ragnar Helgi sé góður í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Ég hef það á tilfinningunni að:  ef hann tæki það í sig að læra spænsku væri hann á fáum dögum farinn að taka þátt í kappræðum í heimspeki á spænsku. Tæki hann það sér fyrir hendur að læra á gítar mundi hann á fáum dögum vera komin í jazzsveit Tómasar R. Einarssonar (sem gítarleikari). Ef RHÓ þyrfti að  smíða verönd yrði skrúfuröðin þráðbein og pallurinn stabíll sem klettur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.